Af hverju flutti ég vestur

Inga Hlín Valdimarsdóttir, Hnjóti.

Það var annað hvort í lok árs 2014 eða byrjun 2015 sem Óskar, kærasti minn benti mér á verið væri að leita að forstöðumanni Minjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti. Óskari fannst þetta frábær hugmynd! Hann alinn upp á Reykhólum og hafði áður bryddað uppá þeirri hugmynd að flytja vestur, við litlar undirtektir frá minni hlið. Ég alin upp á Selfossi við hið ægifagra flatlendi Flóans, en á ættir að rekja á sunnanverða Vestfirði í móðurætt og hafði alist upp við það að þarna væru veður válynd, fjöllin snarbrött og fólk héti furðulegum nöfnum. Núna var ég örlítið jákvæðari þar sem ég hafði verið að vinna á safni á Eyrarbakka og hafði mikinn áhuga á að starfa áfram í þeim geira. Ókei þá! Ég setti eitt skilyrði. Ef annað hvort okkar fengi stöðuna yrði hitt að finna sér vinnu fyrir vestan og flytja með og binda þannig enda á áralanga fjarbúð, en um árabil orðuðum við hlutina þannig að við værum búsett á „norðurlöndunum“, yfirleitt ekki á sama stað í einu. Úr varð að við sóttum bæði um og tveimur viðtölum og nokkrum mánuðum síðar var mér boðið starfið. Í byrjun apríl komum við vestur til að skoða aðstæður og kíkja á íbúðir sem stóðu okkur til boða á Patreksfirði og mánuði seinna vorum við flutt. Þegar búið var að tæma flutningabílinn og bera allt of stóra búslóð inn í alltof litla íbúð lét ég þau orð falla að ég ætlaði aldrei að flytja aftur. Við bættum svo fljótlega við stórum labrador hundi og fyrir ári síðan kom dóttirin Jóna Guðrún í heiminn, svo við neyðumst líklega til að flytja einu sinni enn. Leitin að rétta húsinu stendur yfir. Vill einhver selja okkur hús?

Til að byrja með sá ég flutningana sem tímabundna. Prófa að búa svona lengst úti á landi í kannski 2 ár og sjá svo til. Það kom mér því talsvert á óvart hvað mér líkaði þetta vel. Við búum á Patró yfir veturinn, en á sumrin, á opnunartíma safnsins, erum við að mestu í Örlygshöfn, þar sem safnið er staðsett. Við erum vön svona árstíðarbundnum búferlaflutningum, þar sem við höfðum starfað í fornleifarannsóknum í nokkur ár áður en við fluttumst vestur. Svona líf á því ágætlega við okkur. Líklega liggur það í forfeðrum og mæðrum sem fluttu tímabundið í selið eða verið.

Ég get samt ekki fest fingurinn á það hvað það er sem gerir búsetuna hér vestra svona ánægjulega. Það er eiginlega furðulegt, því það er eiginlega allt gert til að gera lífið hér sem flóknast. Heilbrigðisþjónusta og vegagerð er t.d. ljósárum á eftir því sem gerist í öðrum landshlutum. Þegar Jóna Guðrún var á leiðinni var ég í mæðraskoðun á Patró og íhugaði alvarlega að taka tækjakostinn til varðveislu á safnið. Svo var ég send suður með góðum fyrirvara svo barnið kæmi nú í heiminn við mannsæmandi aðstæður á nútíma sjúkrahúsi. Mér varð oft hugsað til þess þegar Óskar var að suða um að flytja til Svalbarða. Ég hefði líklegast alveg eins getað flutt til Svalbarða. Ég er meira að segja alveg handviss um að það séu betri vegir á Svalbarða en á sunnanverðum Vestfjörðum, en ég ætla ekkert að hafa of mörg orð um það. Svo er stórfjölskyldan fyrir sunnan og gömlu vinirnir og stundum væri maður til í að geta skroppið í kaffi. En svo kynnist maður fólki, eignast nýja vini og fjölskyldan stækkar. Hossast svo á malarvegum og skautar yfir malbikaðar heiðar og hálsa öðru hvoru til að rækta sambandið við fjölskylduna og vinina fyrir sunnan. Lætur sig hafa það og vonar að þau endurgjaldi heimsóknina einhvern daginn. Er það hafið eða fjöllin? Eða kannski fólkið? Örugglega bara blanda af þessu öllu saman. Ég er allavega búin að komast að því að veðrið getur verið rosalega gott fyrir vestan, fjöllin eru brött, en voðalega falleg og langflestir heita mjög venjulegum nöfnum. Og svo er gott að búa fyrir vestan. Það er fyrir öllu.

Ég skora á Pál Vilhjálmsson á Patreksfirði að segja okkur frá því hvers vegna hann flutti vestur.

DEILA