Af hverju flutti ég vestur?

Ég ólst upp í Stykkishólmi, fluttist þangað 6 ára gömul og átti þar heima öll mín uppvaxtarár. Þaðan á ég flestar mínar æskuminningar og þaðan á ég mínar æskuvinkonur. Ein af þessum æskuvinkonum hefur verið mikill örlagavaldur í mínu lífi. Hún á pabba á Patreksfirði og í gegnum hana heyrði ég fyrst um staðinn. Það tók mig mörg ár að fara í heimsókn til Patreksfjarðar, ég kom þangað fyrst og þá til að heimsækja hana árið 1997. Það fyrsta sem ég tók eftir var að það voru nærri engar gangstéttar í þorpinu, það hafði ég bara aldrei séð, fannst jafn sjálfsagt að það væru gangstéttar og að það væru götur, hitt sem sat eftir, var hvað strákarnir voru miklar karlrembur. Ég var 20 ára.

Ári seinna eftir ársdvöl í Austurríki heimsótti ég þessa sömu vinkonu mína sem þá leigði herbergi hjá frænda þáverandi kærasta síns. Hálfu ári seinna flutti ég með frændanum til Patreksfjarðar. Afhverju flutti ég til Patreksfjarðar þá, var af því að mér fannst það góð hugmynd, ég vissi ekki hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór og það gaf mér tækifæri til að íhuga það, svo var ég líka svo skotin í þessum strák. Við bjuggum fyrir vestan í fjögur ár þegar við ákváðum að fara suður og ég fór í háskólanám, því varð ekki frestað lengur. Á Patreksfirði eignaðist ég mitt fyrsta barn, það var árið 2002 á sjúkrahúsinu á Patreksfirði en hún er með síðustu börnunum sem fæddust þar og í raun sérstakt að ég hafi átt mitt fyrsta barn hér þar sem frumbyrjur voru almennt sendar suður. Henni lá bara svo mikið á að komast í heiminn.

Við bjuggum á höfuðborgarsvæðinu í sjö ár, á þeim tíma kláraði ég námið, bæði grunnnám í háskóla ásamt masters námi, ég náði mér í starfsreynslu og eignaðist eitt barn til viðbótar.
Árið 2011 tókum við svo þá ákvörðun að flytjast aftur vestur og þar sem yfirskrift þessa pistils er “Afhverju fluttist ég vestur” er svarið við þeirri spurningu, ég fluttist vestur til að einfalda líf mitt. Á þeim tímapunkti áttum við von á þriðja barninu, ég vann mjög mikið og Davíð maðurinn minn var að róa frá Patreksfirði og keyrði suður í fríum. Þetta var skyndihugdetta, við sáum auglýst hús til sölu hjá fasteignum ríkisins og buðum í það óséð og fengum.
Barnið kom svo í heiminn í desember 2011 og reyndi þá í fyrsta skipti á en það er engin fæðingarþjónusta á staðnum svo við fjölskyldan þurftum að gjöra svo vel að fara til Reykjavíkur og hreiðra um okkur í svefnherbergi foreldra minna sem voru svo elskuleg að gista í svefnsófa á meðan við biðum eftir barninu. Barnið átti að koma í heiminn 24. desember og var það því óvíst það árið hvar við myndum verða yfir hátíðarnar.

Mér þykir mjög miður að þetta er ennþá svona og er stuðningur við konur og fjölskyldur þeirra sem þurfa að sækja fæðgingarþjónustu fjarri heimili ennþá enginn. En það væri nú vel hægt að skrifa annan pistil um það og vona ég svo innilega að breytinga sé að vænta í þeim málum.
Stundum þegar ég er búin að hossast til Reykjavíkur á malarvegunum í Reykhólasveitinni hugsa ég hvort að það væri kannski bara þægilegra að búa fyrir fyrir sunnan þar sem þjónustan er og engin veit að það eru enn til malarvegir á þjóðvegum. En það er fljótt að rjátlast af mér.

Núna sjö árum síðar erum við ennþá hér og ekkert á leiðinni burt. Hér er ég búin að eignast fullt af góðum vinum, hér er stutt í fallega náttúru og samfélag þar sem fólki er annt um hvort annað. Hér er alltaf nóg að gera og vel hægt að vera upptekin öllum stundum. Það er einhver dásamleg tilfinning sem ég fæ þegar ég keyrir inn Raknadalshlíðina og sé ljósin í þorpinu að mér finnst ég vera komin heim. Já og karlarnir hafa skánað mikið á þessum tuttugu árum síðan ég kom fyrst í heimsókn og mestu remburnar reyndust allir vera náskyldir tilvonandi eiginmanni mínum.

Mig langar að skora á Ingu Hlín Valdimarsdóttur að skrifa næsta pistil.

Gerður Björk Sveinsdóttir

DEILA