142 fálkaorður veittar á árinu – það mesta í 35 ár

Mynd af þremur útgáfum fálkaorðunnar.

Á árinu 2018 var 142 einstaklingum veitt fálkaorðan samkvæmt því sem fram kemur á vef forsetaembættisins. Fara verður aftur til ársins 1983 til þess að finna fleiri orðuveitingar á einu ári. Stig orðunnar eru fimm: Keðja ásamt stórkrossstjörnu, stórkrossriddari, stórriddari með stjörnu, stórriddari, riddari.

Langflestar orðurnar féllu í skaut sænskra og finnskra embættismanna í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til þessara landa á árinu.

Þetta mun vera sjötta hæsta árið í orðuveitingum frá því að fálkaorðan var fyrst veitt 1921.  Flestar voru fálkaorðurnar árið 1981 eða 256, þá voru þær 236 árið 1971 og árið eftir 167. Þriðja hæsta árið  er 1954, en þá voru veittar 200 orður.  Fimmta hæsta árið er 1983 með 157 orður og yfirstandandi ár 2018 mun því vera það sjötta hæsta, eftir því sem næst verður komist.

Samtals hafa verið veittar 7.220 orður frá 1921. Það gerir tæplega 74 orður á ári að meðaltali. Frá 1999 hafa orðuveitingar verið innan við 70 á ári þar til 2017.

Frá því að núverandi forseti tók við árið 2016 hefur hann veitt samtals 283 orður, 142 árið 2018 og 141 orðu árið 2017.

Geta verður þess að samantekt eftir árum er ekki aðgengileg en hins vegar er listi yfir orðuhafa frá upphafi aðgengilegur og er unnið upp úr honum. Það gætu verið villur í talningu eftir árum.

Sex manna orðunefnd gerir tillögu til forseta um veitingu orðunnar og tekur hann  ákvörðun í málinu. Forsetinn getur veitt orðu án tillögu orðunefndar.

Í orðunefnd eiga nú sæti:

Guðni Ágústsson, fv. ráðherra, formaður
Ellert B. Schram, fv. alþingismaður og fv. forseti ÍSÍ
Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Jón Egill Egilsson, fv. sendiherra
Svanfríður Jónasdóttir, fv. bæjarstjóri og fv. alþingismaður
Örnólfur Thorsson, orðuritari

 

DEILA