Vilja koma á akstursstyrk fyrir íþrótta- og tómstundaiðkun barna í Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði

Það þarf enginn að efast um mikilvægi íþrótta- og tómstunda fyrir heilbrigði líkama og sálar.

Fulltrúar íþrótta- og tómstundanefndar í Ísafjarðarbæ lögðu fram bókun í gær þess efnis að foreldrar og forráðamenn geti sótt um akstursstyrk til að koma til móts við kostnað vegna aksturs barna frá Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði í íþrótta- og tómstundaiðkun. Jafnframt leggja fulltrúar flokkanna til við bæjarstjórn að farið verði í heildstæða endurskipulagningu á almenningssamgöngum í Ísafjarðarbæ, aksturstyrkur væri því tímabundin lausn uns heildstæðu kerfi verður komið á.

Elísabet Samúelsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundanefndar, segir í samtali við BB að það hafi komið skýrt fram í stefnuskrá flokkanna sem mynda nú meirihluta, að leggja þyrfti áherslu á að efla samgöngur milli byggðakjarna innan Ísafjarðarbæjar. Þá ekki síst í tengslum við frístundastarf barna.

„Nú er í gangi vinna við endurskoðun á íþrótta og tómstundastefnu bæjarins og í þeirri vinnu hélt íþrótta og tómstundanefnd íbúafundi í öllum byggðarkjörnum. Þar var augljóst að þetta mál brennur mikið á fólki og við viljum reyna að skapa besta mögulega umhverfi fyrir öll börn í Ísafjarðarbæ svo þau geti sótt það íþrótta- og tómstundastarf sem er í boði,“ segir Elísabet.

„Akstursstyrkir eru ekki framtíðarlausn heldur viðleitni okkar til þess að koma til móts við foreldra þessara barna, á meðan unnið er að endurskipulagningu á samgöngumálum í heild sinni í sveitarfélaginu. Nánari útfærsla á tillögunni er í vinnslu og var mikil samstaða um hana í nefndinni. Við vonumst einnig til að bæjarráð taki vel í hana.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA