Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2018

Jónas Hallgrímsson fæddist 16. nóvember 1807 að Hrauni í Öxnadal.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent í dag, á degi íslenskrar tungu, í menningarmiðstöðinni Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Verðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2018.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Prófessor emeritus Eiríkur Rögnvaldsson hefur með frumkvæði, elju og ást á íslenskri tungu, verið í framlínu þeirra sem vekja athygli þjóðar og stjórnvalda á þeirri hættu sem steðjar að íslenskri tungu og hinu smáa málsamfélagi okkar. Af atorku hefur hann útskýrt og gert grein fyrir hvílík lífsnauðsyn það er að efla máltækni á íslensku, hvað í því felst og hvaða áhrif það getur haft sé það ekki gert með hraði.

Eiríkur Rögnvaldsson kenndi málfræði og málvísindi við Háskóla Íslands frá því snemma á níunda áratugnum og var prófessor frá árinu 1993 og þar til nú í sumar. Hann hefur verið höfundur og meðhöfundur fjölda bóka, rita og fræðilegra greina um mál og máltækni. Þá hefur hann varið stórum hluta rannsóknartíma síns í ýmis verkefni á sviði máltækni og tungutækni; hefur hann verið í verkefnastjórn viðamikilla verkefna á því sviði og skrifað yfirlitsgreinar um íslenska máltækni, bæði á íslensku og á ensku.

Ráðgjafanefnd vegna Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar skipa að þessu sinni Ingunn Ásdísardóttir, formaður, Einar Falur Ingólfsson og Dagur Hjartarson.

DEILA