Unnið að því að öll 18 mánaða börn komist inn á leikskóla

Foreldrar í fæðingarorlofi flykktust á bæjarstjórnarfund í gær. Mynd: Sólveig Erlingsdóttir.

Áhyggjufullir foreldrar í fæðingarorlofi flykktust á bæjarstjórnarfund hjá Ísafjarðarbæ í gær. Tilefnið var að fylgja eftir bréfi sem foreldrar sendu bæjarstjórn og bæjarfulltrúum varðandi stöðuna á leikskólamálum í Ísafjarðarbæ.

Á bæjarstjórnarfundinum kom einnig fram að á 397. fundi fræðslunefndar hafi fulltrúar Í-listans lagt til að stofnað yrði mál vegna áskorunar frá foreldrum barna sem lenda á biðlista vegna dagvistunar árið 2018-2019. Áskorun var send bæjarstjóra, bæjarfulltrúum og fulltrúum fræðslunefndar ásamt sviðstjórar skóla og tómstundasviðs þriðjudaginn 31. október. Þar segir „Full ástæða er til þess að ræða þetta vandamál sem er að koma upp, bæði innan fræðslunefndar og bæjarstjórnar, til að finna ásættanlegar og ábyrgar lausnir áður en fjárhagsáætlun er fullfrágengin.“

Tillaga Í-listans var að fela skóla- og tómstundasviði að koma með tillögur sem virka, og helst kostnaðargreindar, svo bæjarstjórn geti tekið ákvörðun um aðgerðir sem byggjast á faglegum og raunhæfum kostum. Fræðslunefnd fól á fundi sínum starfsmönnum skólasviðs að vinna að lausn málsins í samræmi við umræður á fundinum.

Forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun sem var samþykkt með öllum atkvæðum:
„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þakkar foreldrum barnafjölskyldna bréf varðandi stöðuna á leikskólamálum. Í dag er unnið eftir því að öll 18 mánaða gömul börn komist inn á leikskóla og á þessu ári hafa verið tekin inn börn niður í 13 mánaðar aldur.

Stefna Ísafjarðarbæjar er að á kjörtímabilinu verði öll börn 12 mánaða og eldri tekin inn.
Vonir standa til að með stækkun Eyrarskjóls næsta sumar náist það markmið.
Bæjarfulltrúar taka undir áhyggjur foreldra sem ekki eru komin með svar um leikskólapláss veturinn 2018-19 og fram yfir sumarlokun 2019.

Á fræðslunefndarfundi í morgun fimmtudaginn 1. nóvember var sett af stað áætlun til að koma til móts við þau börn. Í þeirri áætlun verður tryggt að öll börn fái pláss í síðasta lagi við 18 mánaða aldur þó stefnt verði að því að þau verði tekin inn yngri.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA