Umferðarslys: minningarathöfn

Frá minningarathöfninni. Mynd: Samgöngustofa.

Sérstök athöfn var haldin í fyrradag til minningar um fórnarlömb umferðarslysa á þyrlupallinum við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Þar komu saman fjölmargir aðstandendur sem minntust ástvina sinna og fulltrúar ýmissa viðbragðsaðila. Þetta var í sjöunda sinn sem minningardagurinn er haldinn hér á landi en hliðstæð athöfn fer fram víða um heim undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, minntist þess í ræðu sinni að nú væri nærri 31 ár liðið síðan hann missti báða foreldra sína í bílslysi í Svínahrauni. Hann sagði að 1.564 einstaklingar hefðu látist í umferðinni frá því fyrsta banaslysið varð árið 1915 og að þegar hafi 13 látist á þessu ári. Dagurinn væri helgaður minningu alls þessa fólks og aðstandendum þeirra.

Við athöfnina sagði Þóranna M. Sigurbergsdóttir frá erfiðri lífsreynslu sinni og eiginmanns síns Steingríms Ágústs Jónssonar. Þau hjónin misstu son sinn, Sigurjón, aðeins 17 ára gamlan í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni árið 1996. Sigurjón hefði orðið 40 ára í gær 18. nóvember. Hún lýsti því hvernig sólríkur sumardagur fyrir rúmum 22 árum hefði breytt lífi þeirra.

 

DEILA