Þörfin fyrir viðurkenningu

Jón Páll Hreinsson.

Ég spila stundum fótbolta í stofunni við fjögurra ára son minn. Við höfum lofað að sparka bara eftir gólfinu, eftir að eitt þrumuskotið tók niður lampa með óæskilegum afleiðingum. Í stofunni höfum við gert ágætis völl. Sófinn er eitt markið og hluti af veggnum er hitt markið. Á þessum velli er allt lagt í sölurnar og hvert þrumuskotið af öðru fer á milli okkar feðgna. Það sem er merkilegt við þennan leik okkar er að þrátt fyrir að vera bara fjögurra, þá veit sonur minn alveg upp á hár hver staðan er og hvað hann er búinn að skora mörg mörk. Hann veit nákvæmlega hvenær hann er að vinna og passar að láta mig vita hver staðan er. Í það minnsta þegar hann er yfir.

Hann, eins og svo margir aðrir, vill fá viðurkenningu fyrir mörkin sín. Viðurkenningu fyrir að skora fimm, þegar ég skora bara þrjú. Börn geta nefnilega verið alveg óþolandi í því að krefjast viðurkenningar. Ég veit ekki, kannski erum það við foreldrarnir sem ölum þetta upp í þeim. Allir foreldrar vilja jú að sín börn verði fremst. Að þau fái viðurkenningu, rétt eins og okkur finnst gott að fá.

Það er nefnilega góð tilfinning að fá viðurkenningu. Það er góð tilfinning að vinna og vera fremstur. Þetta er tilfinning sem er ótrúlega sterk og í okkur öllum. Við viljum öll vera viðurkennd á einn eða annan hátt. Hvort heldur sem það er viðurkenning frá fólkinu í kringum okkur eða umhverfinu almennt. Viðurkenningu sem nútíminn kallar á með því að segja til dæmis að við verðum að eiga fallega skó, fallegan bíl eða nýjasta símann. Við þurfum ekki annað en að opna einhvern samfélagsmiðil til að sjá hversu þessi þörf er í raun sterk.

Það voru þó ekki samfélagsmiðlar sem fundu upp þörfina fyrir viðurkenningu. Þessi þörf fyrir viðurkenningu, þörfin að að vera fremstur, hefur verið með okkur manninum um aldir. Ritaðar heimildir eins langt aftur og finnast, lýsa sögum um meting, keppnir og ekki síst sigra yfir andstæðingum. Þeir lýsa þessari ódrepandi þörf fyrir að vera fremstur.

Það sem er verra, er þegar þörfin til að vera fremstur brýst út í þörfinni til að vera æðri. Að vera öðrum mönnum æðri. Eins og þegar hvítir menn telja sig vera svarta manninum æðri. Eða þegar karlar telja sig vera konum æðri. Kristnir æðri múslimum og svo mætti halda áfram. Sagan er full af sögum um stríð sem maðurinn hefur háð til að verja það sem við álítum vera okkar heilaga rétt til að vera að vera öðrum æðri. Að vera öðrum fremri. Að fá viðurkenningu.

Tilfinningin að vera öðrum æðri er afbökuð mynd af okkar djúpu þörf fyrir viðurkenningu. Það er nefnilega ekkert að þörfinni fyrir viðurkenningu. Og til að taka af allan vafa, þá er ekkert að því að eiga nýjan síma eða ganga í fallegum skóm. Það verður ekki rangt nema að þú haldir að nýji síminn eða fallegu skórnir geri þig betri eða æðri annarri manneskju.
Og hvað er þá til ráða fyrir fjögurra ára gamlan gutta sem vill fá viðurkenningu frá pabba sínum. Sem betur fer er þörfin fyrir viðurkenningu ekki vond þörf. Það er ekki vont að vilja vera fremstur. Það sem skiptir máli er hvernig þú verður fremstur. Af hverju færðu viðurkenningu? Fyrir hvað færðu viðurkenningu?

Ég þekki ótrúlega margt fólk sem hefur unnið sér inn viðurkenningu með því að þjóna öðrum. Fólk sem leggur líf sitt og sál í að þjóna samfélaginu sem við lifum í. Fólk sem vinnur hundruðir, jafnvel þúsundir klukkutíma til þess að við hin getum lifað í samfélaginu hérna í Bolungarvík, eða á Vestfjörðum, á Íslandi, heiminum. Hvort sem um er að ræða kleinubakstur fyrir kvenfélagið, standa heilan dag sem brautarvörður á skíðamóti eða leggja líf sitt í hættu þegar samborgari fer villur vegar á fjöllum. Það er til fólk sem leggur sig allan fram í að vera fremst. Fremst í að þjóna.

Það er svo merkilegt að til þess að vera fremstur í að þjóna samborgum þínum skiptir ekki máli hver þú ert. Hvaðan þú kemur. Hvað þú átt fallegan bíl eða nýjan síma. Þú þarft ekki að vera í besta forminu, vera ungur, ríkur eða gáfaðastur til að vera fremstur í að þjóna samfélaginu eða samborgurum þínum.

Í því felst hin sanna viðurkenning. Að vera til staðar fyrir aðra.

Jón Páll Hreinsson

Bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar

DEILA