Teigsskógur: Skipulagsstofnun leggur til tímafrekt ferli

Reykhólar.

Skipulagsstofnun hefur sent sveitarstjórn Reykhólahrepps tillögur um næstu skref varðandi málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum, lögum um umhverfismat áætlana og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Er þetta gert í framhaldi af fundi þann 23. október sl. með sveitarstjóra og sveitarstjórnarfulltrúum Reykhólahrepps.

Varðandi aðalskipulag gera tillögur Skipulagsstofnunar ráð fyrir að staðfest aðalskipulagsbreyting geti legið fyrir í sumarbyrjun 2019.

Þá þýða tillögur Skipulagsstofnunar að verði Þ-H leið fyrir valinu sé málinu lokið hvað umhverfismat áhrærir. Þá yrði hægt að hefjast handa strax. Verði hins vegar aðrir kostir ofan á, það er brúarleið, hvort heldur það er R leið Multiconsult eða A3 leið Vegagerðarinnar eða D2 sem er breytt jarðgangaleið , þá „ætti ferlið hér að neðan, þ.e. kynning frummatsskýrslu, frágangur matsskýrslu og gerðs álit Skipulagsstofnunar að geta farið fram á seinnihluta árs 2019.“ eins og segir í skýrslu Skipulagsstofnunar. Miðað er við að allir lögbundnir frestir standi, eins og þar segir, og „jafnframt sé haldið mjög markvisst á málum á öllum stigum, jafnt hjá framkvæmdaraðila, sveitarstjórn og Skipulagsstofnun.“

Miðað við þetta mat Skipulagsstofnunar má ætla að framkvæmdir gætu aldrei hafist fyrr en 2020 og það gæti dregist frekar ef teygist á kæruferlum. Ekkert kemur fram í þessum minnispunktum hvaða áhrif  aukinn kostnaður hefur, sem myndi leiða af því að velja dýrari kosti,  enda það væntanlega utan verksviðs Skipulagsstofnunar.

DEILA