Samfélagið gerir öðruvísi væntingar til drengjaknattspyrnu

Í byrjun nóvember var haldin ráðstefna í Háskólanum í Reykjavík sem nefndist: „Jákvæð íþróttamenning.“ Þar var var Charlotte Ovefelt meðal annarra með erindi en hún er jafnréttisráðgjafi sænska íþróttafélagsins IF Brommapojkarna. Ovefelt talaði um um knattspyrna hefði miðast við karla frá upphafi og að mestu fjármunirnir færu til karladeilda. Hjá félaginu hennar væri unnið markvisst að því að opna félagið fyrir alla iðkendur og bjóða upp á æfingar fyrir bæði kynin.

Í samræmi við breytta stefnu opnaði félagið IF Brommapojkarnar einnig íþróttahús sín og hallir fyrir yngri kynslóðir iðkenda þegar þörfin er mest, á kvöldin og um helgar. Eins er farið að bjóða upp á æfingar fyrir stúlkur sem hafa aldrei áður verið í skipulögðu íþróttastarfi. Ungmenni fá jafnvel að vinna á viðburðum IF Brommapojkarna.

En hvernig er staðan í Ísafjarðarbæ hjá Vestra? Fá stelpurnar jafn mikla athygli og fjármuni í knattspyrnuæfingar og strákarnir? BB hafði samband við Sigríði Láru formann HSV, Svavar Þór Guðmundsson formann knattspyrnudeildar Vestra og Kristján Kristjánsson formann unglingaráðs knattspyrnudeildar Vestra til að fá svar við þessum spurningum.
Það eru um 200 börn og unglingar á aldrinum 4-16 sem æfa knattspyrnu hjá Vestra á Ísafirði. Ívið fleiri drengir en stúlkur, eða um 65% drengir á móti 35% stúlkna. Svavar segir að þegar hann tók við sem formaður yngri flokka BÍ88 árið 2005 hafi verið farið í markvissa vegferð sem beindist að því að fá fleiri stelpur í fótbolta og allt gert til að gera þeim jafnhátt undir höfði og strákunum. Það hafi tekist að mörgu leyti þó mörg vígi séu enn óunnin.

Það ber hæst að nefna viðhorf samfélagsins, foreldra og barnanna til íþróttarinnar. Einhverra hluta vegna er knattspyrnuiðkun drengja tekin fastari tökum af þeim sjálfum og umhverfinu heldur en knattspyrnuiðkun stúlkna. Viðmælendur BB nefna að svo virðist til dæmis sem drengir leggi meira upp úr því að vera í íþróttafötum við hæfi og að þeir sleppi helst ekki æfingum á meðan að stúlkur setji æfingarnar í annað sæti ef þær rekast á við aðra afþreyingu. Sama á við um keppnisferðir sem virðast oftar en ekki vera hátt skrifaðar hjá drengjum en lægra hjá stúlkum. Stúlkurnar hafa þó oftar en ekki mikinn áhuga á að fara í keppnisferðir og jafn mikinn og drengir en skortir kannski stuðning og frekari hvatningu til þess.

Þá nefna þau mismunandi viðhorf samfélagsins til knattspyrnuiðkunnar drengja og stúlkna. Stelpurnar virðast hafa meira frjálsræði til að gera það sem þær vilja á meðan að strákarnir eru undir strangari aga um að bera ábyrgð gagnvart sínu liði og mæta á æfingar og í keppnisferðalög. Þetta sé þó ekki algilt en áberandi.

Fjölmiðlar spila þar einnig áhrifamikið hlutverk og það er umhugsunarvert af hverju íþróttir karla og drengja fá oftar en ekki meiri athygli heldur en íþróttir kvenna. Þarna er víða pottur brotinn og ábyrgð fjölmiðla felst í því að gera öllum greinum beggja kynja jafn hátt undir höfði, til þess að hvetja samfélagið til þess sama.

Seinustu ár hefur ekki tekist að vera með meistaraflokk kvenna í knattspyrnu hjá Vestra. Síðast var meistaraflokkur hjá BÍ/Bolungarvík árin 2012-2014 sem endaði með samstarfi við ÍR árið 2015. Þar á undan var meistaraflokkur kvenna hér Vestra árin 2006 og 2007. Frá 2015 hefur ekki verið meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu á svæðinu. „Það er mjög bagalegt því fótboltastelpur þurfa að hafa eitthvað til að horfa fram til og horfa upp til. Eldri iðkendur eru nauðsynleg fyrirmynd þeirra yngri og slæmt þegar þær fyrirmyndir eru ekki til staðar af báðum kynjum. Það hefur hinsvegar ekki verið nægjanlegur fjöldi stelpna á svæðinu til að halda úti liði,“ sögðu viðmælendur BB.

Þegar kemur að félaginu sjálfu hafa ýmsar leiðir verið farnar til að auka þátttöku barna af báðum kynjum í knattspyrnu. Menntaðir þjálfarar eru til staðar fyrir bæði stelpur og stráka og félagið hefur fengið knattspyrnukonur að sunnan til að hitta liðin hérna. Fyrirmyndir eru nefnilega mikilvægar. Einnig er passað er upp á að æfingatími og aðstaðan sé eins. „Á veturnar þegar æfingar eru innanhúss er æfingatími mjög takmörkuð auðlind. Allir æfingatímar í íþróttahúsinu á Torfnesi, Austurvegi og Bolungarvík er skipt á milli félaganna og ekkert þeirra fær eins marga tíma og þau þurfa.“

„Vegna takmarkaðs æfingatíma hafa félögin þurft að sameina fámennari flokka á æfingar, það gerist frekar hjá stelpum í knattspyrnunni því þær eru færri sem æfa og taka frekar frí frá fótboltanum á veturna og sinna öðrum íþróttagreinum eða áhugamálum heldur en strákar. Væntanlegt knattspyrnuhús hér á Ísafirði mun leysa mörg vandamál með æfingatíma. Knattspyrnan fær þá nægan æfingatíma við bestu aðstæður og einnig rýmkast um æfingatíma fyrir aðrar greinar þegar fótboltaæfingar fara út úr íþróttahúsunum.“

Þau segja líka að æfinga- og leiktími á grasvellinum á Ísafirði sé mjög takmarkaður. Völlurinn er orðin gamall og er viðkvæmur sem þýðir að hann þolir takmarkað álag. „Meistarflokkur karla í knattspyrnu hjá Vestra hefur þar verið í forgangi með bæði æfingar og leiki en það kemur til vegna krafna sem KSÍ gerir til deildarinnar sem þeir eru í. Hvorki gervigrasvöllurinn né knattspyrnuvöllurinn í Bolungarvík uppfylla þær kröfur og því fara allir heimaleikir mfl kk Vestra fram á grasvellinum á Torfnesi og þess vegna hefur sá flokkur forgang á æfingatíma þar. Yngri flokkar hafa þó alltaf fengið einhverja leiki og æfingar á grasvellinum og er þeim tíma skipt jafnt á milli flokka. Það sama á við um meistaraflokk Harðar í knattspyrnu karla, þeir spila í 4. deild og geta leikið sína heimaleiki á gervigrasinu og því hafa þeir verið með svipaðan æfinga- og leiktíma á grasvellinum og yngri flokkarnir.“

„Það er mjög brýnt að sett verði gervigras á aðalvöllinn til að allir flokkar geti æft þar og spilað óháð aldri. Væntingar eru um að það verði skoðað í kjölfarið á knattspyrnuhúsinu,“ segja þau Sigríður Lára, Svavar og Kristján að lokum.

Sæbjörg
sfg@bb.is