Fyrirtækin Hraðfrystihúsið Gunnvör hf í Hnífsdal, Jakob Valgeir ehf í Bolungavík og Oddi ehf/Vestri ehf á Patreksfirði fengu um milljarð króna í afslátt af veiðigjaldi á fimm ára tímabili til þess að létta þeim kaupin á kvóta (aflahlutdeild) sem keyptur var fyrir lok árs 2011. Þegar lögum um veiðigjald voru sett á árinu 2012 var sett fimm ára bráðabirgðaákvæði svohljóðandi:
„Á fiskveiðiárunum 2012/2013 til [2016/2017] skal félag eða einstaklingur með atvinnurekstur sem greiða skal sérstakt veiðigjald skv. 13. gr. eiga rétt á lækkun þess vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum [sem einungis eru íslenskar] til ársloka 2011 samkvæmt þessu ákvæði.“
Fiskistofa hefur birt sundurliðun á lækkun veiðigjaldsins fyrir þessi fimm ár. Samkvæmt upplýsingum hennar hefur Hraðfrystihúsið Gunnvör hf fengið samtals 487,3 milljónir króna lækkun á álögðu veiðigjaldi á þessu fimm ára tímabili miðað við verðlag hvers árs. Framreiknað er fjárhæðin ríflega 520 milljónir króna.
Jakob Valgeir ehf fékk 268,9 milljónir króna lækkun sem jafngildir um 290 milljónum króna og Oddi/Vestri fengu samanlagt 167,2 milljónir króna sem jafngildir um 182 milljónum króna.
Fyrirtækin geta selt aflahlutdeildirnar hvenær sem er. Lækkun veiðigjaldsins verður þá ekki endurgreidd. Afslátturinn féll úr gildi í upphafi fiskveiðiársins 2016/17 og fyrir vikið hækkuðu greiðslur fyrirtækja mikið sem höfðu fengið lækkun á veiðigjaldinu af þessum ástæðum. Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur vakið athygli Alþingis á hækkuninni.