Miklar hræringar á hlutabréfamarkaðnum í Auðkúluhreppi

Myndin er tekin á toppi Ánarmúla og sýnir dýrlegt útsýni til Bíldudals og Ketildala. Ljósm. Ólafur heitinn Gíslason, Neðrabæ í Selárdal.

Fréttaritari vor í Auðkúluhreppi símar:

Í dag lék allt á reiðiskjálfi í Kauphöllinni í Auðkúluhreppi í Arnarfirði. Hlutabréf í mörgum félögum skiptu um eigendur og er nánast ómögulegt að átta sig á þeim sviptingum öllum. Hvað þá að nokkur maður viti almennilega á hvaða verði bréfín fóru.

Eignarhaldsfélagið Puntstrá ehf. Samvinnufélag, sem er 49% í eigu Gríms grallara, forstjóra Ánarmúla ehf og 50% í eigu Karls Karlssonar á Karlsstöðum, forstjóra Glímufélagsins Hlaðseyrar hf en 1% eru í eigu almennra félagsmanna, mun eignast alla hluti í Ufsum hf., sem fer með 40,3% eignarhlut í Hjallkárseyri hf, sem er 90% í eigu Rauðs á Rauðsstöðum, samkvæmt kaupsamningi þess efnis, að því er segir í áríðandi fréttatilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps.

Urðarhlíð hf hefur til þessa verið 50,12% í eigu Skóga ehf. og 49,88% í eigu Gíslaskers sf, en samningur milli félaganna gerir ráð fyrir að Ánarmúli ehf. taki við öllum hlutum Dynjanda II í Skógum ehf.

Þá hefur núverandi hluthöfum Dynjanda II verið veittur kaupréttur á sama viðskiptagengi til 29. febrúar 2019, á þeim hlutum sem undir voru í viðskiptunum. Samkvæmt tilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps má rekja tilurð viðskiptanna til þess að líftími Dynjanda II mun renna sitt skeið á næsta ári. Og þá skipta þeir um kennitölu. Úff!

(Þessum texta er miskunarlaust stolið af Þingeyrarvefnum án þess að nokkur skammist sín töluvert eða eitthvað. sfg@bb.is)

DEILA