Miðflokkurinn : flokksstjórnarfundur

Miðflokkurinn hélt flokksstjórnarfund sinn á Akureyri um helgina. Gerðar voru margar ályktanir sem saman skýra stefnu flokksins og sýn hans um þessar mundir.

Í aðfararorðum að ályktunum segir m.a. :

Á tímum sem ólga af samfélagsbreytingum er skynsemistefnan sérstaklega mikilvæg. Stefna sem byggir á að greina úrlausnarefni samfélagsins, leita bestu og skynsamlegustu lausnanna með því að hlusta á öll sjónarmið og vera opin fyrir tillögum frá öllum hliðum og taka ákvörðun byggða á rökum. Mikilvægt er svo að standa með þeirri ákvörðun, með bestu lausnunum, þó það geti verið erfitt.

Þetta er stefna Miðflokksins. Stjórnmálaöfl til hægri og vinstri  hafa í gegnum áratugina lagt margt gott til stjórnmálanna hvor um sig en engin ein hugmyndafræði hefur svör við öllum úrlausnarmálum samfélagsins. Skynsemisstefnan býður að hlusta á hugmyndir að lausnum frá öllum hliðum og velja þá bestu, eða blanda þeim saman til að ná enn betri árangri.

Framundan bíða fjölmörg flókin úrlausnarefni sem krefjast skynsamlegra lausna og stjórnmálamanna sem eru tilbúnir að berjast fyrir bestu og skynsamlegustu lausninni. Endurskipulagning fjármálakerfisins, bygging nýs þjóðarsjúkrahúss á betri stað, lausn á húsnæðisvanda ungs fólks, og að staðið verði við loforðið sem gefið var öldruðum eru meðal þeirra úrlausnarefna.

Miðflokkurinn ætlar að takast á við þessi verkefni, og öll hin, af skynsemi og staðfestu.

Þá segir:

Við ætlum að hugsa um landið sem eina heild, eitt samfélag. Í því felst að gera þarf heildaráætlun sem tekur á öllum þáttum samfélagsins og þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir landið. Við ætlum að samstilla ólíkar aðgerðir svo eitt styðji á sem bestan hátt við annað. Samhæfing aðgerða þarf að eiga sér stað frá einum stað. Mikilvægt er að þannig sé á málum haldið og tækifærin nýtt um allt land. Þannig verður komast hjá því að hver vinni í sínu horni án yfirsýnar. Við ætlum að fjárfesta í landinu öllu, snúa vörn í sókn.

Meðal áherlsuatriða eru þessi:

Hækka þarf bótagreiðslur þeirra sem eru á endurhæfingar- eða örorkulífeyri. Tafarlaust skal afnema skerðingar lífeyris krónu á móti krónu. Grunnbætur öryrkja verði hækkaðar og um leið settir inn hvatar svo fólk með skerta starfsgetu geti unnið án þess að bætur skerðist.

Mikilvægt er að vinna að nýtingu líklegra olíu- og gaslinda í íslenskri lögsögu.

Við ætlum að endurgreiða virðisaukaskatt af byggingu íbúðarhúsnæðis á kaldari svæðum (sbr. „Allir vinna“), nýta okkur fyrirmynd Norðmanna með skattalega hvata, jafna flutningskostnað ásamt því að tryggja raforkuflutning.

Bankarnir verði minnkaðir með því að greiða úr þeim umfram eigið fé í ríkissjóð – vextir lækkaðir.

tekjur af umferð og ökutækjum verði í stórauknum mæli eyrnamerkt til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins –  horfið verði frá hugmyndum um gjaldtöku á vegakerfið.