Lýðháskólinn á Flateyri styrktur.

Halla SignÝ Kristjánsdóttir, alþm.

Stofnun Lýðháskóla á Flateyri í haust markaði þýðingarmikið spor í samfélagið við Önundarfjörð. Ég var þess ánægju aðnjótandi að vera við skólasetninguna og upplifði ég ákveðin vendipunkt í samfélaginu sem hefur átt undir högg að sækja undanfarna áratug. Það var líkt og þorpið sem svaf væri að rumska af værum blundi. Uppbygging skólans er í samræmi við umhverfið og ber dám af því. Námsleiðir byggist á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu auk þess sem kraftur er sóttur í fjölbreytt úrval góðra leiðbeinenda.

Fjármagn tryggt í fjárlögum

Það er því ánægjulegt að sjá að í tillögum að fjárlögum Alþingis fyrir árið 2019 má sjá að það eigi að skjóta styrkum stoðum undir skólastarfsemina. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur áherslu á að þessi framlög séu grunnur að tilraun með þetta skólastarf. Lögð er áhersla á að mennta- og menningarmálaráðherra geri formlega samninga við skólann og tryggja fjármögnun hans.

Lýðháskólar eiga erindi

Það er margt sem bendir til að lýðháskóla vanti inn í íslenskt menntakerfi. Þessar stofnanir hafa verið við líði í meira en hundrað ár á Norðurlöndunum og rannsóknir hafa sýnt fram á arðsemi bæði fjárhagslegum, félagslegum og menningarlegum skilningi. Því er mikil ávinningur að styðja við og uppbyggingu þessara skóla í íslensku menntakerfi. Lýðháskólar á Íslandi geta orðið bæði öflugt svar við sumum af þeim áskorunum sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir og verða mikilvægar einingar á landsvísu.

Ekki eru til lög um lýðháskóla hér á landi, en gert er ráð fyrir að frumvarp til laga um lýðskóla komi frá menntamálaráðherra í mars. Frumvarpið fjallar um lagalega stöðu lýðskóla í íslensku skólakerfi, viðurkenningu og ábyrgð á starfsemi þeirra.

Þar er m.a. lagt til að nafni skólana verði breytt úr lýðháskóla í lýðskóla. Heitið „háskóli“ er lögverndað fyrir þær stofnanir sem hafa hlotið viðurkenningu mennta-og menningarmálaráðherra samkvæmt lögum um háskóla. Því er þetta lagt til í fyrrnefndu frumvarpi.

Þeirra er heiðurinn

Þeir sem stóðu að stofnun lýðháskóla á Flateyri hafa sýnt það og sannað að margt er hægt að gera með öflugu frumkvöðlastarfi með stuðningi samfélagsins á Flateyri og á norðanverðum Vestfjörðum. Þeirra er heiðurinn og hafa nú uppskorið viðurkenningu sem vonandi verður til að treysta stoðir skólans á Flateyri.

Halla Signý Kristjánsdóttir 7. þingmaður NV kjördæmis.

 

DEILA