Kyrrstöðumennirnir og tvöfeldnin

Áhugamenn um Árneshrepp, sem kalla sig svo, og jafnvel um Vestfirði, ef mjög mikið liggur við, eiga það helst sammerkt að standa gegn breytingum, vilja ekki vera hér vestra, en eru háværir í fjölmiðlum og keppast við að andmæla hverjum þeim tilburðum  sem uppi eru hafðir til þess að styrkja búsetu og mannlíf.

Þetta eru kyrrstöðumenn, allar breytingar eru áhætta, ógnun og eyðilegging. Það er að segja utan við þeirra eigin sjóndeildarhring. Það má ekki leggja veg um Þorskafjörð, það má ekki virkja í Strandasýslu, það má ekki ala fiska í kvíum í vestfirskum fjörðum, það má ekki flytja störf í Fiskistofu vestur. Það má ekki þetta og hitt.

En heima í eigin garði þýtur tíminn áfram á ljóshraða með stöðugum framförum á öllum sviðum. Þar fer engin kona í stríð gegn breytingunum. Kyrrstöðumenn eru nefnilega, sunnan Skarðsheiðar, framsæknir nútímamenn sem krefjast alls þess besta og láta ekkert stöðva hina þungu kröfu um stöðugt batnandi lífskjör.  Vegir eru lagðir eftir þörfum yfir allt sem fyrir verður. Hraun hvað? Hús eru byggð þar sem arðurinn dregur þau, meira að segja yfir kirkjugarða. Kyrrstöðumennirnir horfa vorkunnaraugum á gamla forsetann og gamla skákmeistarann og umbera tal þeirra með aðdáunarverðri þolinmæði þess sem allt veit og öllu ræður. Húsafriðun stöðvar ekki sálarlausan kapitalismann, gömlu húsin eru bara flutt upp í Árbæ eða út í Skerjafjörð eða það sem er best,  rifin og skilin eftir sú hliðin sem snýr út að götu. Svo er byggt nýmóðins hótel á bak við fúaspýturnar. Það er íslenska útgáfan af Pótemkintjöldum. Kyrrstöðumaðurinn er ekki kyrrstöðumaður nema annars staðar.

Hvalárvirkjun virðist vera nýjasta skotmark svörtu umhverfisverndarinnar, sem berst fyrir óbreyttu óviðunandi ástandi á stórum landsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Móðurskip þessarar hreyfingar er Landvernd, sem hefur verið lyft til pólitískra áhrifa í núverandi ríkisstjórn með umhverfisráðherra úr þeirra röðum. Samtök, sem undanfarinn áratug hefur framfylgt af mikilli grimmd þeirri stefnu, að kæra allar orkuframkvæmdir með hörmulegum afleiðingum og gríðarlegum kostnaði fyrir land og þjóð, hafa verið verðlaunuð með því að sá sem helst ber ábyrgð á öfgunum, er nú ráðherrann og fyrirsvarsmaður málaflokksins.  Sá verðlaunaði kórónar svo verkið með því að verðlauna þá sem lagnastir eru að nota fjölmiðla til þess að bregða fæti fyrir Vestfirðinga.

Það eru nýmæli í íslenskum stjórnmálum að nú er til flokkur, sem leggur sig allan fram um að gera þeim erfitt fyrir sem veikast standa á landsbyggðinni að halda velli í samkeppni við höfuðborgarsvæðið. Skrif Viðars Hreinssonar í Morgunblaðinu á laugardaginn gegn Hvalárvirkjun veita innsýn inn í hugarheim kyrrstöðumannsins sem Viðar er að skírskota til. Fyrir honum erum við sem viljum nýta vatnsaflið ofurseld vanþekkingu, en staðreyndin er hið gagnstæða, skrif hans eru  byggð á töluverðri og einbeittri vanþekkingu.

Virða ekki leikreglurnar

Áform um Hvalárvirkjun hafa farið í gegnum lögbundið ferli, tvisvar sinnum, sem tók mörg ár og allir sem vildu gátu komið að athugasemdum og það oftar en einu sinni. Tvisvar hefur Alþingi samþykkt tillögu um að virkjunin verði í nýtingarflokk. Aðeins einn aðili, Landvernd, lagðist gegn en engin annar. Enginn. Ekki Náttúrufræðistofnun Íslands. Ekki Viðar Hreinsson. Ekki Fréttablaðið. Ekki Vinstri grænir. Þessir aðilar koma eftir á og vilja breyta leikreglunum þegar búið er að fara í gegnum langt og strangt ferli með jákvæðri niðurstöðu. Tilraunir til þess að yfirtaka Árneshrepp með flutningi fólks á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor er einsdæmi; ósvífin aðgerð þar sem reynt var að koma í veg fyrir að meirihlutavilji heimamanna réði. Viðar Hreinsson kallar það skopleik að heimamenn fengu að ráða, en fyrir flesta aðra er skopleikurinn eða öllu heldur harmleikurinn athæfi hinna sem reyndi að hafa rangt við í leikreglum lýðræðisins. Listamenn búsettir í Berlín reyndu í alvöru að fá kosningarétt í Árneshreppi. Hvernig má það vera að þessi alvarlegasta atlaga að lýðræðislegu fyrirkomulagi, almennum kosningum, sem orðið hefur, skuli ekki vera rannsökuð og dregið fram hverjir bera ábyrgð og þeir sóttir til saka ? Það er óumdeilt sakamál að hafa lýðræðið að leiksoppi.  Ef menn komast upp með að brjóta leikreglurnar á bak aftur bara vegna þess að niðurstaðan var þeim ekki að skapi þá er illa komið fyrir stjórnskipaninni.

Náttúrurfræðistofnun eftir á

Framganga Náttúrufræðistofnunar Íslands er rannsóknarefni. Stofnunin gerði engar athugasemdir né sendi inn umsögn um Hvalárvirkjun þegar ferlið var í gangi. En kemur nú skyndilega fram með tillögu til umhverfisráðherra um friðun svæðis þar sem tvær virkjanir eru áformaðar, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun með vísun til þess að vernda þurfi jarðmyndanir. Þrátt fyrir að beðið hafi verið um rökstuðning fyrir tillögunni þá hefur hann ekki komið að öðru leyti að vísað er í jarðfræðiritgerðir. En ekki fæst uppgefið hvað í þessum ritgerðum styður við tillögur stofnunarinnar. Hér fer fram opinber stofnun beinlínis í því skyni að spilla fyrir, eftir á. Náttúrufræðistofnun er til húsa í nýbyggðri glæsibyggingu í miðju fallegu hrauni. Þar eru víst ekki merkilegar jarðmyndanir.

Viðar með viðsnúning

Skrif Viðars Hreinssonar eru gegnsæ og feta í fótspor sem áður hafa verið stigin í þessu máli. Hann hefur það hlutverk að þyrla upp ryki til þess að dylja slóðina. Staðreyndin er að það eru andstæðingar Hvalárvirkjunar sem ganga gegn leikreglum í umhverfismálum og svífast einskis og þessir andstæðingar koma líka innan úr stjórnkerfinu þar sem enginn virðist hafa taumhald á framgöngu einstakra forstöðumanna ríkisstofnana. Skrif Viðars eru líka til þess að fela tvöfeldnina og náttúruverndarbaráttunni. Það eru tvær stefnur í landinu og önnur fyrir landsbyggðina og hin fyrir höfuðborgarsvæðið.

Arðsemin ræður

Það verður arðsemin sem ræður því hvort Hvalárvirkjun verður reist. Svo virðist að þrátt fyrir fremur háan kostnað sé þessi kostur að verða arðbær vegna hækkandi raforkuverðs. Það skiptir ekki máli hvar kaupandinn er, ekki frekar en að kaupendur raforku af Þjórsársvæðinu eru á höfuðborgarsvæðinu og í Hvalfirði. Það mun hins vegar vera þjóðhagslega og öryggislega  mikilvægt að reisa virkjanir utan helsta jarðskjálftasvæðis landsins og þá þarf einmitt að hafa traustar flutningsleiðir milli landssvæða og innan þeirra.  Náttúruspjöll eru óveruleg og flest afturkræf. Engir fossar spillast. Fallvatnið verður tekið í jarðgöngum niður á láglendi. Sumir fossar verða vatnsminni af þeim sökum á meðan virkjunin er starfrækt, en að þeim tíma loknum verður allt eins og áður.

 

Það hafa Vestfirðingar og reyndar fleiri upplifað undanfarin mörg ár að óviðunandi ástand á einhverju mikilvægi sviði er ekki nóg til þess að úr verði bætt, fyrr en þá eftir dúk og disk – kannski.  Vestfirðingar fá ekki nýjar og betri flutningslínur til þess að flyja raforku til þeirra, þrátt fyrir æpandi vanda. Það mun að öllum líkindum ekkert breytast. Meira að segja Norðlendingar megna ekki að vinna bug á sínum orkuflutningsvanda. Hvalárvirkjun bætir ástandið að hluta til. En hún gerir það líka að verkum að aðrir verði háðir rafmagni frá Vestfjörðum. Þeir sem það á við um munu krefjast úrbóta og verða því bandamenn Vestfirðinga.

Kyrrstöðumennirnir eins og Viðar Hreinsson leggja sig fram um að koma í veg fyrir framfarirnar. Hann hefur ekkert að bjóða í staðinn. Hann bara talar gegn, en er aldrei með – nema heima hjá sér á Hagamelnum.  Hann vill bara fórna lífsskilyrðum Vestfirðinga, en ekki sinna eigin.

Kristinn H. Gunnarsson

DEILA