Kambsmálið: Héðan fer ekkert okkar út!

Móðirin og börnin. Efri röð frá vinstri: Trausti, Fanney, Marta, Pálína og Ágúst. Neðri röð frá vinstri: Anna, Jóna, Guðbjörg, Kristín og Þorbjörg.

Út er komin bókin Kambsmálið – Engu gleymt, ekkert fyrirgefið eftir Jón Hjartarson rithöfund og fyrrverandi fræðslustjóra. Bókin segir frá fornaldarlegum átökum fátækrar fjölskyldu við hreppsyfirvöld í Árneshreppi. Bókaútgáfan Sæmundur gefur út.

Blaðið grípur hér ofan í upphafskafla bókarinnar þar sem segir frá því þegar hreppstjóri mætir að bænum Kambi þann 4. júní 1953 þeirra erinda að bjóða upp dánarbú heimilisföðurins sem látist hafði fyrr á árinu. Húsmóðirin var á berklahælinu á Vífilsstöðum en heima fyrir einungis börnin, átta talsins og á aldrinum 7 til 18 ára. Millifyrirsagnir eru blaðsins.

 

Krakkar í koti við rýran kost

Veturinn og fram á sumar búum við systkinin á Kambi. Ég var 18 ára, Jóna 17 ára. Við héldum okkur mest heimavið, enda að engu að hverfa annarsstaðar á þessum tíma árs. Hvernig framhaldinu yrði háttað var ekki í okkar höndum, en samt var framtíðarhugsunin hjá okkur bundin við búsetu á Kambi, að minnsta kosti fyrsta kastið. Heilsan hjá mömmu var svo léleg að þegar leið á vorið varð hún að fara til Reykjavíkur að leita sér lækninga, sem endaði með því að hún var lögð inn á Landspítalann í lok júní.

Heima á Kambi hírðumst við krakkarnir ein í kotinu við rýran kost og litla gleði. Aðstæðurnar voru þrúgandi þegar saman fóru veikindi mömmu og óvissan sem tengdist dánarbúinu. Dánarbúið var óuppgert, við sáum að pabbi hafði skuldað hreppnum, kaupfélaginu og fleirum þegar það var skrifað upp og vissum að fyrr en síðar kæmi að því að skiptaráðandi tæki ákvörðun um uppgjör á þessum skuldum. Við gerðum okkur samt einhverjar vonir um að við gætum haldið áfram að eiga heima á Kambi, að hreppsnefndin og aðrir sem málið varðaði myndu með einhverjum hætti liðka til og sjá til þess að það gæti orðið.

Við vissum auðvitað að undir svipuðum kringumstæðum hafði fjölskyldum verið sundrað, yngri börn gerð að sveitarómögum og komið fyrir hjá þeim sem minnst meðlags kröfðust, en eldri börnum komið í vinnumennsku þar sem þau gætu sjálf unnið fyrir sér án þess að valda sveitarþyngslum. Þetta voru algeng úrræði í sveitum áður fyrr, en við vildum samt ekki trúa því að þetta yrðu okkar örlög um miðja 20. öldina. Við vorum öll sammála um að berjast gegn sundrun fjölskyldunnar með öllum tiltækum ráðum, ef slík ráðstöfun væri uppi á teningnum hjá yfirvöldunum.

Helvítis aumingjar

Þann 13. maí mætti hreppstjórinn að Kambi til þess að skrifa upp dánarbúið eftir pabba. Þar var allt tínt til, bæði dautt og lifandi, sem mögulegt var að koma undir dánarbúið. Þegar uppskriftinni var lokið tilkynnti hann okkur að uppboð á dánarbúinu færi fram fljótlega.

Umburðarbréf, þar sem uppboðið var auglýst, var borið á alla bæi í sveitinni og í sama bréfi var auglýst annað uppboð í Reykjarfirði, sem fara ætti fram 6. júní sama ár eða tveim dögum eftir uppboðið hjá okkur. Þegar kom að uppboðsdeginum bökuðum við pönnukökur um morguninn svo hægt yrði að bjóða gestunum kaffi og með því.

Ég man ekki hvað við hugsuðum þennan morgun, kannski hugsuðum við ekki neitt, en við bárum svo mikla virðingu fyrir hreppstjóranum og oddvitanum og öðrum embættismönnum hreppsins, sem við vissum að kæmu að uppboðinu, að það var ekki annað í boði en taka vel á móti þeim og öðrum sveitungum.

Það komu margir sveitungar, einhverjir komu á bátum og lentu í mesta basli í lendingunni, aðrir komu ríðandi eða gangandi. Ég man ekki hvað margir komu en það var þröng í eldhúsinu og strax mikið þvarg, því um leið og hreppstjórinn gekk inn úr dyrunum, íklæddur embættisskrúðanum, gleypti hann í sig nokkrar pönnukökur og tilkynnti okkur síðan að við mættum ekki bjóða í góssið.

Ég vissi betur og mótmælti þessu ákveðið og úr urðu ansi hörð orðaskipti, sem enduðu með því að hreppstjórinn gafst upp á mér og tilkynnti, að fyrst ég léti svona þá yrði að staðgreiða allt á staðnum. Ég sagði það allt í lagi, þar sem ég vissi að Ágúst bróðir hafði fengið útborgað daginn áður á Djúpuvík og gæti staðgreitt.

En þegar komið var út í fjárhús og uppboðið hófst kom í ljós að fæstir höfðu peninga á sér svo hætt var við að krefjast staðgreiðslu og auglýstir skilmálar látnir standa. Ýmsir í hópnum urðu okkur reiðir og fannst að ég ætti ekki að standa svona upp í hárinu á hreppstjóranum, heldur að kyssa á vöndinn og vera þakklát fyrir það sem að okkur væri rétt. Í hamaganginum heyrði ég að Guðjón Magnússon frá Kjörvogi kallaði mig  „helvítis aumingja“ og átti sjálfsagt við að lítilsiglt fólk eins og við ættum ekki að vera með uppsteyt. Það verður þó að segja karlaumingjanum til hróss, að hann keypti af mér rollu á yfirverði um haustið, hefur sjálfsagt séð eftir orðum sínum frá því á uppboðinu.

Engu gleymt og ekkert fyrirgefið

Á þessum fáu mínútum fauk öll virðingin gagnvart þessum mönnum út í veður og vind og hefur aldrei komið til baka. Engu gleymt, ekkert fyrigefið. Greinilegt var að þeir voru ákveðnir í að „ganga frá fjölskyldunni“ í eitt skipti fyrir öll, að selja allt sem hægt væri að selja og skipta svo okkur krökkunum niður á bæi eins og hverju öðru búfé. Það kom glögglega í ljós að búið var að ákveða hvert við elstu systkinin ættum að fara, en með þau yngri, sem ekki var almennilega hægt að nýta til alvöru vinnu, var allt í óvissu. Þeim skyldi komið fyrir þar sem meðlag væri minnst og viðráðanlegt út frá sjónarhóli sveitarstjórnar; sem sagt, gerð að sveitarómögum.

Þegar uppboðinu var lokið úti í fjárhúsum fóru allir aftur heim í bæ til að skipta okkur krökkunum niður á bæina, meðal annars átti Jóna að fara til hreppstjórans til að vera á símanum og annast aldraða móður hans og fleira, einn kvað upp úr með „að hann tæki strákinn“ og átti þar við Trausta bróður. Þá var það sem ég stillti mér upp í dyrunum og sagði:

„Héðan fer ekkert okkar út.“

Þögn sló á alla viðstadda. Samt var eins og flestum létti, það var auðfundið að sumum fannst framganga yfirvaldanna harðneskjuleg og miskunnarlaus gagnvart okkur sem höfðum engan nema okkur sjálf til að treysta á.

Hér stóð bærinn Kambur. Mynd: Jón Jónsson.
DEILA