Jón Guðbjörn hefur aftur tekið við póststarfinu

Jón Guðbjörn Guðjónsson hefur aftur tekið til við að hirða og dreifa pósti í Árneshreppi. Mynd: Eva Sigurbjörnsdóttir.

Þær fréttir hafa borist úr Árneshreppi að Jón Guðbjörn Guðjónsson í Litlu-Ávík hafi nú um síðustu mánaðamót tekið við öllum pósti í Árneshreppi, það er bréfhirðingu og að dreifa pósti á bæina. Hann sér þess vegna um póststöðina á Norðurfirði fyrir Íslandslandspóst. Ár er liðið síðan Jón hætti sem póstur en þá tók Ólafur Valsson við, um leið og hann opnaði verslunina á Norðurfirði. „Hann tolldi ekkert við það frekar en að vera í versluninni,“ segir á vef Litla-Hjalla en Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti var með póstinn í sumar en á erfitt um vik vegna anna á hreppsskrifstofunni.

Í haust hafði Íslandspóstur svo samband við Jón G að taka póstinn alveg yfir. Jón lét á endanum undan þrýstingi og tók við öllu 1 nóvember síðastliðin fyrir póststöðina 524 Árneshreppur. „ Ég er bara endurvakin póstur aftur segir Jón G.“

Honum ætti þó ekki að verða kalt við störfin því eindæma hitabylgja hefur gengið yfir Vestfirði, svona miðað við árstíma. Til dæmis þegar Jón Guðbjörn, sem einnig er veðurathugunarmaður, mældi hitann að morgni dags þann 17. nóvember stóð mælirinn í 13,9 stigum og fór upp í 15 gráður þegar leið á morguninn. Jón segir þetta óvenjulegt í nóvembermánuði og þetta hafi varla gerst betra í sumar „Þessi hiti bætir líðan manna og heilsu örugglega.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA