Jól og breyttir tímar

Ég þakka Unni Björk fyrir áskorunina, þó ég hafi fyrst um sinn hreint ekki verið viss um að ég væri rétta manneskjan í að ræða jólahefðir og undirbúning jólanna á þessu stigi lífs míns.

Það er nefnilega þannig að síðustu tvö jól (og nú þau þriðju) hefur undirbúningur aðallega verið af andlegum toga. Ég hef semsagt frekar verið að undirbúa mig andlega undir allan jólaundirbúninginn sem kemur ekki til með að eiga sér stað því aðstæður hafa bara breyst svo mikið að jólin eru hreint ekki eins og ég hef vanist þeim.

 

Þegar ég bjó á heimili foreldra minna einkenndist undirbúningur jólanna af mömmukökubakstri með pabba, spesjubakstri með mömmu og ýmsu öðru dúlleríi meðan Páll Óskar og Monika léku ljúfa jólatóna í bakgrunni. Á Þorláksmessu skreyttum við systkinin jólatréð með gömlum gersemum, mörgum hverjum heimaföndruðum, og nutum þess að eiga kvöldstund saman.  Á aðfangadag var hádegismatur í Mjógötu, hjá ömmu Kötu og afa Dóra, fyrir þá sem það vildu. Þar komu afkomendur þeirra saman, þrátt fyrir að allir hefðu nóg að gera og ættu eftir að hittast að minnsta kosti fjórum til fimm sinnum næstu daga, við höfum bara óheyrilega gaman af samveru hvert við annað. Upp úr hádegi fórum við fjölskyldan og dreifðum jólakortum og pökkum á heimamenn og enduðum svo auðvitað í heitum hornum og kóki í gleri hjá Siggu Láru og Hjalta. Fastir liðir eins og venjulega.

Jólabaðið var svo iðulega tekið í heita pottinum og þegar rjúpuilmur hafði fyllt öll vit og klukkurnar hringdu inn jólin, settumst við niður og borðuðum. Eftir að hafa opnað aragrúa af jólapökkum lá leiðin svo yfirleitt aftur í Mjógötu, þar sem ættingjar söfnuðust saman að nýju og létu aðfangadagskvöld verða að nóttu í notalegri samveru.

 

Nú er svo komið að ég á barn og kærasta og jólin eru ekki lengur bara tími þar sem ég fer heim til foreldra minna og fylgi hefðum sem ég hef fylgt frá því ég var barn. Fyrir konu úr stórri fjölskyldu með mikið af hefðum og allskonar undirbúningi er bara svolítið erfitt að venjast því.

Maður á það til að sitja fast á hefðum bara því “þannig hefur þetta alltaf verið”, en maður þarf kannski að gefa sér frelsi til að finna hefðir sem henta manni sjálfum betur. Ég gæti t.d. haldið áfram að baka mömmukökur og spesjur í desember, en ég hef hreint ekki gaman af

því að baka og svo finnst mér smákökur ekki góðar. Það væri því skrítið að fara að sitja fast á þessum hefðum einungis til að heiðra minningar gamalla tíma.

 

Undirbúningurinn í ár verður því bara eins og síðustu tvö ár. Ég ætla að reyna að njóta aðventunnar heima hjá mér með fjölskyldunni. Pakka inn gjöfum, kannski skreyta svolítið, kannski baka svolítið en aðallega að forðast allt óþarfa stress og minna sjálfa mig á að hlutirnir þurfa ekki alltaf að vera eins til að vera góðir. Svo koma jólin alltaf aftur, og ef ekki, jah þá þarf ég nú varla að hafa miklar áhyggjur af jólaundirbúningnum.

 

Ég skora á Andreu Gylfadóttir í Hnífsdal að segja okkur frá sínum jólaundirbúningi.

Katrín María Gísladóttir