Á síðasta fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var lagt fram yfirlit fjármálastjóra um skatttekjur og laun frá janúar til október 2018. Útsvarstekjur eru 26,6 milljón króna yfir áætlun og eru 1.698 milljónir króna fyrir tímabilið. Jöfnunarsjóður er 22,6 milljónum króna yfir áætlun eða 700 milljónir króna. Að lokum er launakostnaður 3,4 milljónum króna undir áætlun en launakostnaðurinn nemur 2.045 milljónum króna í lok október 2018.
Frávik launakostnaðar frá áætlun er hverfandi þessa 10 mánuði eða 0,2%. Launakostnaður í Byggðasafni Vestfjarða, Umhverfismála og menningarmála skera sig úr og eru töluvert undir áætlun og á hinn veginn er Hafnarsjóður nærri 12% yfir áætlun.
Byggðasafnið er 2 milljónir króna undir áætlun sem er 8,5% frávik vegna minni mönnunar
en áætlað var, uppgjörs vegna starfsloka og breytingar á opnun í Vélsmiðjunni á Þingeyri. Í menningarmálunum er skýringin sú að Safnahúsið er 5,7 milljónir króna undir áætlun þar sem stöðugildi eru ekki fullnýtt. Varðandi Hafnarsjóð þá eru Hafnarskrifstofur 9,7 milljónir
króna yfir áætlun vegna leiðréttinga á yfirvinnu sem var ranglega uppsett í skráningakerfi vinnustundar. Einnig hefur verið meiri yfirvinna á höfninni en var áætlað.