Í dag er 8. nóvember sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti

Skólar landsins eru líklega vinnustaðirnir sem vinna hvað markvissast gegn einelti alla daga, enda er eitt af meginhlutverkum þeirra að tryggja öryggi og vellíðan barnanna sem í þeim starfa. Allir skólar eru líka með áætlun um hvernig taka skuli á einelti ef það kemur upp, en sem betur fer er í flestum tilfellum hægt að grípa inn í áður en neikvæð hegðun gengur svo langt að hana megi flokka sem einelti.

Einelti er í eðli sínu hegðun sem börn reyna að fela og þess vegna verður starfsfólk skóla ekki endilega vart við hana á byrjunarstigi, en foreldrar verða kannski varir við vanlíðan eða breytingar í heðgun barnsins og þá er alltaf ástæða til að skoða hvað veldur. Það er miklu flóknara að taka á málum ef þau hafa fengið að þróast lengi heldur en ef hægt að vinna með þau á byrjunarstigi. Þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar láti starfsfólk skóla vita strax ef þeir hafa grun um að vanlíðan barns tengist samskiptum eða öðru sem skólinn getur hjálpað til við að vinna með.

Börn gera sér oft alls enga grein fyrir hvaða áhrif framkoma þeirra hefur á aðra, það er ekki endilega ætlun þeirra að gera öðrum miska, þau einfaldlega hugsa ekki út í afleiðingar gjörða sinna. Þeir sem eru gerendur í slíkum málum þurfa yfirleitt góðar leiðbeiningar og geta með þeim breytt hegðun sinni, þannig að öllum líði betur.

Það er þó ekki þannig að einelti sé bundið við skóla, það sést því miður líka í hegðun og samskiptum fullorðinna og ekki síst í netheimum. Það ætti að vera okkur, fullorðna fólkinu, keppikefli að vera góðar fyrirmyndir fyrir börn og ungmenni hvað þetta varðar. Það þýðir ekki að við getum ekki verið ósammála eða lýst skoðunum okkar, við ættum hins vegar að gæta þess að vera málefnaleg í umfjöllun okkar og leggja frekar mat á verknaði en persónur.

Við gætum eflaust öll leitt hugann oftar að því hvaða áhrif framkoma okkar hefur á aðra og rætt um það við börnin sem við umgöngumst svo þau sjái og læri að það er eðlilegt að velta fyrir sér líðan samferðamanna sinna, því börn læra jú mest af því sem þau sjá okkur gera en minna af því sem við segjum þeim að gera.

Jóna Benediktsdóttir

Skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri