Hnífsdalur: Fluttu kvótann og fengu byggðakvóta

Stefnir ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Byggðarlagið Hnífsdalur fékk úthlutaðan byggðakvóta upp á  222 tonn frá Fiskistofu fiskveiðiárið 2017/18. Árið áður var byggðakvótinn 45 tonn og þar áður aðeins 8 tonn. Tvö fiskveiðiár þar á undan 2013/14 og 2014/15 var engum  byggðakvóta úthlutað til Hnífsdals.

Þessi mikla aukning kallar á skýringar. Þau svör fengust í Atvinnuvegaráðuneytinu að einkum tvennt réði því að Hnífsdalur fékk 222 tonna byggðakvóta.

Annars vegar samdráttur í kvóta og hins vegar samdráttur í vinnslu botnfiskafla. Samdráttur í kvóta Hnífdals stafar af því að kvóti var fluttur af Páli Pálssyni ÍS yfir á Stefni ÍS. Páll var skráður í Hnífsdal og Stefnir á Ísafirði. Sá kvótatilflutningur er innan sama fyrirtækis og hefur engin áhrif á fyrirtækið og framleiðslu þess. Þrátt fyrir það skapar tilflutningurinn rétt til stuðnings frá ríkinu til byggðarlagsins í formi endurgjaldslauss kvóta. Ísafjarðarbær og Fiskistofa koma að úthlutun kvótans á einstök skip og varð niðurstaðan að Páll Pálsson ÍS fékk 166 tonna byggðakvóta í þorskígildum talið, þar af 120 tonn af þorski. Áætlað verðmæti byggðakvótans er um 25 milljónir króna. Það verður að teljast arðbær hreyfing á kvóta milli skipa innan sama fyrirtækis.

Óljósara er hvers vegna samdráttur varð í botnfiskvinnslunni, en líkleg skýring er sjómannaverkfalli sem hófst í desember 2016 og stóð í 10 vikur. Unnið magn af botnfiski á tímabilinu sem haft er til viðmiðunar hefur þá orðið óvenjulágt og það skapar rétt til byggðakvóta.

Unnið er að því nú að skipta byggðakvótanum milli byggðarlaga fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

DEILA