Fyrrum nemi í Haf- og strand sér um enska þætti á RÚV

Alëx Elliott. Mynd: Ragnar Visage. RÚV

Glænýjir þættir hófu göngu sína á RÚV í gær sem eru til þess ætlaðir að koma enn frekar til móts við enskumælandi hluta þjóðarinnar sem og ferðamenn og nema. Þetta eru þættirnir: „This week in Iceland,“ en stjórnandi þeirra er Alëx Elliott, fyrrum nemandi í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Alëx kemur upphaflega frá Bretlandi og lærði fjölmiðlun þar áður en hann lagði leið sína til Ísafjarðar, þar sem hann bjó frá 2009-2014. Hann stundaði nám á Háskólasetrinu frá 2009-2012 og vann eftir það í verslun Pennans Eymundssonar.

Annar fóturinn á Alëx er samt alltaf að rata aftur vestur. Hann sá um SIT, Study abroad prógrammið fyrir Háskólasetrið 2016-2017 og kemur reglulega á sínar gömlu heimaslóðir til að hitta vini og kunningja. „Ég fór aftur til Bretlands árið 2014 og var þar þangað til á þessu ári, þegar tækifæri bauðst til að vinna hjá RÚV,“ segir Alëx í samtali við BB. „Það var frábært að fá þetta tækifæri og geta flutt aftur til Íslands,“ sagði hann ennfremur.

Alëx hefur séð um þá þætti sem snúa að RÚV á ensku og þá mest allt sem birst hefur á þessari síðu. Þar má finna bæði útvarps- og sjónvarpsefni en þátturinn sem hóf göngu sína í gær mun birtast á hverjum mánudegi og fjalla um margt það sem gerðist undanfarna viku á Íslandi, nema á ensku.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA