Frítekjumark eflir smábátaútgerð.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður Atvinnuveganefndar Alþingis.

Það er ánægjulegt að samstaða náðist í atvinnuveganefnd um að leggja til verulega hækkun á frítekjumarki veiðigjalda og koma þar með verulega til móts við erfiðleika í rekstri margra lítilla og meðalstórra útgerðarfyrirtækja sem margar hverjar eru burðarásar í sínum byggðarlögum.

Leggjum við til að frítekjumarkið verði sem nemur 40% afsláttur af fyrstu 6 m.kr. sem þýðir að hámarksafsláttur getur orðið á hvern útgerðaraðila 2.4 m.kr. en er í dag um 1.5 m.kr. þetta þýðir að minni og meðalstórar útgerðir greiði lægra hlutfall af aflaverðmæti af veiðigjaldi hverju sinni upp að 6 m.kr.

Mikil samþjöppun hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár og samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hefur útgerðum sem ráða yfir aflahlutdeildum fækkað úr 946 í 382 frá árinu 2005 til yfirstandandi árs sem þýðir að fækkað hefur um tæp 60% á 12 árum.

Til þessara útgerða teljast bæði útgerðir með aflamark og krókaaflamark en langstærstur hluti þessa samdráttar liggur í smábátaútgerðinni.

Á fiskveiðiárinu 2013 voru krókaaflamarksbátar 354 talsins en við upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs voru þeir orðnir 258 og hefur þeim fækkað um fjórðung á um fjórum árum. Vissulega hafa ýmsar ytri aðstæður haft þar áhrif auk aukins þunga veiðigjalda og heimildar frá 2013 til stækkunar krókaaflsbáta sem ýtt hefur undir áframhaldandi samþjöppun veiðiheimilda.

Þetta er áhyggjuefni og alvarlegt fyrir byggðaþróun í sjávarbyggðum landsins þar sem litlar og meðalstórar útgerðir skapa  ákveðna byggðafestu og skapa afleidd störf bæði í fiskvinnslu og í þjónustugreinum.

Minni útgerðir skapa tækifæri til nýliðunar í greininni og er það útgerðarform sem hentar vel þeim sjávarbyggðum þar sem stórútgerðin er ekki til staður.

Umhverfisrök og loftslagsmál styðja líka við að efla eigi smábátaútgerð sem stundar vistvænar veiðar og brennir minna eldsneyti á hvert kíló af afla til móts við t.d. skuttogara ef marka má rannsóknir.

Einnig er smábátaútgerðin fjölskylduvæn sjómenn geta verið meira með fjölskyldum sínum og dagróðrarbátar skila fersku hráefni til vinnslu sem mikil eftirspurn er eftir.

Allt mælir því með að stjórnvöld beiti sér fyrir því að rekstrarskilyrði og lagaumhverfið sé sem hagfelldast fyrir greinina svo litlar og meðalstórar útgerðir geti vaxið og dafnað í framtíðinni og eflt búsetuskilyrði í sjávarbyggðum landsins. Fjölbreytt útgerðarform hringinn í kringum landið er sjávarútveginum mjög mikilvægt.

Með þessu frumvarpi um veiðigjöld er verið að afkomutengja veiðigjöldin sem næst rauntíma og að veiðigjöldin endurspegli afkomuna sem best hvort sem það leiðir til hækkunar eða lækkunar veiðigjalda hverju sinni.

Sérstök áhersla á að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að efla hinar dreifðu byggðir landsins.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

Formaður atvinnuveganefndar.

 

DEILA