Enginn biðtími á sálfræðimeðferð hjá Minni líðan

Tanja Dögg og Sveinn Óskar.

Þjónustu á sviði geðheilbrigðis er oft ábótavant á landsbyggðinni. Þó er sú þjónusta oftar en ekki jafn mikilvæg og þjónustan sem ætluð er fyrir líkamlega heilsu. Þau Sveinn Óskar og Tanja Dögg hafa opnað sálfræðiþjónustu á netinu þar sem þau geta sinnt hverjum sem er, hvenær sem er og biðtíminn er enginn.

Síðan þeirra heitir Mín líðan. Og þar er boðið upp á sálfræðimeðferð á netinu við einkennum þunglyndis og félagskvíða. Til þess að vita hvort meðferðin henti, þá er hægt að svara nokkrum spurningum og í boði er ókeypis kynningartími. Þau Sveinn Óskar og Tanja segja í samtali við BB að viðbrögðin hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra. Verkefnið er unnið í samstarfi við Velferðarráðuneytið og Landlækni og nýverið gerðu þau samning við Virk þar sem skjólstæðingar Virk geta nýtt sér meðferðarúrræði Minnar líðan.

„Miðað við þann áhuga sem við höfum fengið frá Vestfjörðum og þær upplýsingar sem við fáum frá íbúum þaðan er aðgengi að sálfræðiþjónustu líklega minnst á Vestfjörðum á landinu. Við höfum heyrt sögur um að á ákveðnum svæðum komi sálfræðingur á staðinn einu sinni í mánuði og bóka þurfi tíma hjá honum með löngum fyrirvara. Viðtölin fari síðan fram á bókasafninu á staðnum. Þetta er bara eitt dæmi um það vandamál sem við erum að leysa enda geta skjólstæðingur hjá Mín líðan sinnt meðferðinni hvar og hvenær sem er svo lengi sem þeir hafa rafræn skilrík og síma, tölvu eða spjaldtölvu og aðgang að internetinu,“ segja þau Sveinn og Tanja.

„Meðferðin er stöðluð 10 tíma hugræn atferlismeðferð við einkennum þunglyndis og félagskvíða. Meðferðin fer alfarið fram í gegnum netið og samanstendur af fræðslu, verkefnum og æfingum. Skjólstæðingar fá endurgjöf á verkefni og geta haft samband við sinn sálfræðing í spjalli á öruggu heimasvæði hvenær sem er yfir meðferðartímann. Gert er ráð fyrir að hver meðferðartími taki um 30-60 mínútur í yfirferð og að meðferðin í heild taki að meðaltali 10-12 vikur,“ segja þau.

Það er enginn biðtími eftir sálfræðimeðferð hjá þeim og flest stéttarfélög niðurgreiða eða styrkja meðferðina. Þau hvetja fólk til að athuga hvort stéttarfélagið eða jafnvel vinnuveitandi veiti fjárhagslegan stuðning við sálfræðimeðferð og bæta við: „Enda er andleg vanlíðan ört stækkandi vandamál og við erum öll í sama liði þegar það kemur að því að bæta andlega líðan þjóðarinnar.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA