Arnarlax: 3 milljarðar króna nýtt hlutafé

Verulegt rekstrartap varð á þriðja ársfjórðungi þessa árs af rekstri Arnarlax. Nam það um 465 milljónum króna. Tekjur voru 69 milljónir NOK eða um 1 milljarður íslenskra króna. Meginskýringin á versnandi afkomu af rekstri frá fyrra ári er að finna í minnkandi magni af slátruðum laxi. Slátrað var 1.200 tonnum á þriðja ársfjórðungi þessa árs en í fyrra voru það 1.700 tonn. Á móti hefur lífmassinn aukist og verðmæti hans var um 700 milljónum króna meiri en fyrir ári. Þegar tekið hefur verið tillit til þess verður afkoman fyrir skatta jákvæð um 13 milljónir NOK eða um 190 milljónir íslenskra króna.

Nú er áætlað að slátrað verði 6.100 tonn á árinu 2018 sem er um 600 tonnum minna en 2017.  SalMar hefur sett inn reiðufé 200 milljónir NOK ( 2,9 milljarðar ÍSK) sem nýtt hlutafé og er hlutafjáreign þess í Arnarlax nú 41,95%.

SalMar: 120 milljarðar kr tekjur

Afkoma norska fyrirtækisins Salmar er mjög góð á þessu ári. Tekjur fyrstu þrjá ársfjórðungana 2018 er 120 milljarðar króna og hafa heldur aukist frá fyrra ári. Slátrað hefur verið 102 þúsund tonnum af laxi og hagnaður af rekstri, fyrir fjármagnskostnað og skatta er nærri 37 milljarðar króna. Hagnaður fyrir skatta reiknaður niður á hvert framleitt kg er um 440 ÍSK. Ársframleiðsla fyrirtækisins er áætluð verða 143.000 tonn á þessu ári og heldur meiri 2019 eða 145.000 tonn.

 

Alþjóðlegar horfur góðar

Í skýrslu SalMar fyrir þriðja ársfjórðung 2018 er spáð vaxandi framleiðslu á Atlantshafslaxi næsta ári um 5% og um 4% á þessu ári. Heildarframleiðslan verður 2,6 milljónir tonna 2019 og þar af er nærri helmingur framleiddur í Noregi. Þar sem eftirspurnin vex meira en framleiðslan verða verðin góð fyrir framleiðendur og er því spáð að meðalverðið á næsta ári verði um 64 NOK eða um 930 ÍSK fyrir hvert kg.

DEILA