Arctic Sea Farm: 4,5 milljarður króna undir

Brunnbátur á leið í Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fram kemur í umsókn  Arctic Sea Farm til Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um bráðabrigðaleyfi að félagið hafi þegar ráðist í milljarða króna fjárfestingu á grundvelli leyfisins sem úrskurðarnefndin felldi úr gildi.

Nú eru þegar tilbúin 1.600 þúsund seiði sem setja á í sjó í Patreksfirði. Áætlað verðmæti þeirra eru 320 milljónir króna. Einnig sé búið að klekja og hefja startfóðrun á 1.400 þúsund seiðum fyrir útsetningu á næsta ári í Tálknafirði. Áætlað verðmæti þeirra sé um 200 milljónir króna, segir í bréfi Arctic Sea Farm. Í þriðja lagi hafi verið fjárfest í og búið að koma fyrir kerfisfestingum og kaupa eldiskvíar fyrir samtals um 250 milljónir. Samtals eru þetta 770 milljónir króna.  Þá hafi á grundvelli leyfisveitingarinnar verið ráðist í byggingu á nýrri seiðastöð félagsins. Starfsemi þar eigi að fara fram í þremur seiðahúsum, samtals 12.000 m2, en í hverju húsi verði fjögur sjálfstæð kerfi með hreinsistöðvum. Húsin verða reist í þremur áföngum. Framkvæmdum við fyrstu bygginguna er lokið og önnur byggingin langt á veg komin. Þegar hafi verið varið vel yfir 3,6 milljörðum í þessar framkvæmdir.

Samanlögð fjárfesting vegna uppbyggingarinnar í samræmi við aukið laxeldi sem leyfið veitir er samkvæmt þessu þegar orðin nærri 4,5 milljarðar króna.

Er í rökstuðningi félagsins fyrir veitingu bráðabirgðaleyfis vísað til þessarar fjárfestingar og því að „stærsta fjárhagslega tapið sé þó fólgið í þeim tekjumissi sem leiði af því að innviðir félagsins verði ekki nýttir til framleiðslu og sölu á endanlegri afurð.“

 

Í andmælum Óttars Yngvasonar fyrir hönd kærenda í málinu segir um þetta:

„Ljóst sé að hagsmunir Arctic Sea Farm hf. séu mjög takmarkaðir að svo komnu enda ekkert eldi áætlað fyrr en um mitt ár 2019. Mótmælt er sérkennilegum margföldunartölum fyrirtækisins um verðmæti framleiðslu í framtíðinni. Tal um fjöldauppsagnir og gjaldþrot og brostnar forsendur fyrir rekstri félagsins sé út í hött, einhvers konar hræðsluáróður, og ekki í samræmi við staðreyndir, enda stöðugildi engin enn við væntanlegt eldi í Patreksfirði.“

 

DEILA