Án er ills gengis nema heiman hafi

Nú er svo komið að Vestfirðingum er nóg boðið.  Formaður samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga, Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, mælir eflaust fyrir munn velflestra þegar hún segist vera undrandi, gáttuð og mjög vonsvikin á sveitarstjórn Reykhólahrepps, sem ákvað að láta gera enn eina skýrsluna um valkosti um leið fyrir nýjan veg um sveitina, svokallaða valkostagreiningu.

Þegar rúmlega tuttugu ára sögu um leiðaval um Gufudalssveit virtist loks verða lokið 8. mars 2018 með ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps um Þ-H leiðina (áður B leið) sem liggur að hluta til um Teigsskóg var valin var mörgum Vestfirðingnum létt. Það var ekki hvað síst sveitarstjórnin í Reykhólahreppi sem barist hefur fyrir því í gegnum árin að vinna stuðning við þessa leið umfram aðra kosti. Sú barátta var einkum háð við utanaðkomandi aðila. Þar ber langhæst Skipulagsstofnun ríkisins. Framganga stofnunarinnar er fyrir löngu komin út fyrir allt velsæmi og er því miður ekki ekki lát á. En nú á lokasprettinum er það nýkjörin sveitarstjórn sem gengur gegn öllu sem sveitarfélagið hefur barist fyrir í þessu máli.  Þessi viðsnúningur er óvæntur, ómálefnalegur og óskiljanlegur í garð  þeirra Vestfirðinga sem unnið hafa í einlægni að framgangi málsins.

Reykhólahreppur krefst B leiðar

Til eru formleg bréf Reykhólahrepps frá desember 2005 til Skipulagsstofnunar þar sem eindregið er mælt með B leiðinni.

Í nóvember 2016 segir í umsögn Reykhólahrepps um frummatsskýrslu Vegagerðarinnar, þar sem bornir eru saman fimm valkostir, að Reykhólahreppur taki undir tillögu Vegagerðarinnar að nýr vegur verði lagður skv. leið Þ-H. Segir í umsögninni að sú leið sé í samræmi við aðalskipulag hreppsins 2006-2018 og aðrir kostir séu það ekki. bent er á að markmið aðalskipulagsins séu að leita hagkvæmustu lausna í vegagerð og stuðla að umferðar- og rekstraröryggi. Þar stendur líka að Þ-H leiðin sé í samræmi við markmið stjórnvalda um stefnu í samgöngumálum og aðrir kostir séu það síður og séu þar að auki mun dýrari. Loks segir í umsögninni að Þ-H leiðin sé fullnægjandi varðandi  umferðaröryggi og  hún sé hagkvæmust. Telur hreppurinn aðra valkosti síðri að þessu leyti.

Þann 8. mars 2018 þegar sveitarstjórnin tekur ákvörðun í máli er hún rökstudd ítarlega. Um stóru þverunina segir í samþykktinni að sú leið sé lakari umhverfislega séð en Þ-H leiðin og dýrust og að miklar líkur séu á frekari töfum verði hún fyrir fyrir valinu og það kunni að hafa í för með sér „talsverð neikvæð áhrif á samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum og ógna þeirri jákvæðu samfélagsþróun sem má sjá merki um á svæðinu.“

Það er bara ein lína í afstöðu Reykhólahrepps allan þennan tíma Þ-H leið og nú hefur öllum ytri hindrunum verið rutt úr vegi. Aðalskipulagsbreytingar eru afgreiddar og á bara eftir að birta þær og þá er hægt er að gefa út framkvæmdaleyfi.  En þá komu 5 milljónir króna frá IKEA stjórnarformanninum.

Reykhólahreppur snýr við blaðinu

Sveitarstjórn Reykhólahrepps gengur eigin stefnu og rökstuðningi á málinu í öllum atriðum.  Nú er stefnt að dýrasta kostinum, með lakara umferðaröryggi og mun verri umhverfisáhrif. Nú er orðið ofan á að véfengja skýrslur og áætlanir Vegagerðarinnar. Vegagerðin er sökuð um að vera hlutdræg og dylgjað um að áætlanir um kostnað við einstaka kosti sé hagrætt og sumir gerðir lakari en efni standa til og aðrir betri. Nægir að vísa til greinar eins hreppsnefndarmanns frá 5. maí 2018 sem lesa má vef Reykhólahrepps því til staðfestingar. Sá sem skrifar var sá eini sem var á móti Þ-H leiðinni 8. mars sl. og bregst við með því að bera sakir á Vegagerðina. Hinir fjórir tóku ekki undir það. Það er helsta hlutverk norsku ráðgjafarstofunnar Multiconsult að véfengja útreikninga Vegagerðarinnar. Hvers eiga sveitarstjórnarmenn á Reykhólum síðustu 16 ára að gjalda fyrst þeir fá þennan blauta sjóvettling framan í sig?

Reykhólahreppur vinnur gegn Vestfirðingum

Það sem augljóslega er stefnt að er að fá umferðina í gegnum þorpið á Reykhólum. Það er talinn ábati af því fyrir einhverja þar. Gallinn við þessa stefnu er að hún gagnast fáum, ef nokkrum, en hún gengur gegn hagsmunum allra annarra. Könnun hefur sýnt að nærri 90% Vestfirðinga styðja Þ-H leiðina.

R leiðin skerðir búsetulega  og efnahagslega hagsmuni bænda á Reykjanesinu. Hún veldur miklum umhverfisspjöllum þar að auki á Barmahlíðinni. Það mun eflaust verða langvarandi deilur og kærur ef R leiðin verður farin. Þessi leið lengir leiðina fyrir alla vegfarendur aðra en þá sem eru að fara bara til Reykhóla. Hún skerðir umferðaröryggi umtalsvert og eykur slysahættu. R leiðin bætir ekkert vegasamband Reykhóla við þjóðveginn. Samgöngulega býr þorpið við góðar samgöngur. Hér er verið að misnota skipulagsvald sveitarfélagsins til þess að knýja fram  einhvern óljósan efnahagslegan ávinning fyrir fámennan hóp. Töf á töf ofan virkar sem tæki til þess að knýja ríkið til frekari útgjalda. Aðrir Vestfirðingar og einkum á sunnanverðum Vestfjörðum  eru þeir sem líða fyrir gjörðir hreppsnefndarinnar. Er það virkilega svo að sveitarstjórnarmenn í Reykhólahreppi ætla sér að nota  neyð annarra Vestfirðinga ? Er nokkur furða þótt rifjist upp ummæli Eyjólfs gráa sem frá er sagt í Gísla sögu Súrssonar:

Eyjólfur mælti: Satt er hið fornkveðna, án er ills gengis nema heiman hafi.

Mættu þeir sem í hlut eiga minnast aðdraganda þessara fleygu ummæla Eyjólfs gráa og verður ekki meira um það sagt að sinni.

 

Verða sett lög?

Þetta er algerlega óásættanlegt ástand. Það hefur áður komið fram lagafrumvarp á Alþingi til þess að leiða málið til lykta með sértækri löggjöf. Þá beindist frumvarpið einkum gegn utanaðkomandi aðilum sem stóðu í vegi fyrir almannavilja. Það varð þá ekki afgreitt. En nú eru fáeinir heimamenn helsta vandamálið, að ógleymum garminum honum Katli, Skipulagsstofnun. Löggjöf myndi taka málið úr þeirra höndum og ljúka því í samræmi við tillögur Vegagerðarinnar og almennan vilja Vestfirðinga. Pólitísk staða málsins hefur verulega breyst og nú eru miklar líkur sem standa til þess að Alþingi myndi afgreiða lagasetningu fljótt og ágreiningslítið. Sveitarstjórnin hefur ekki langan tíma til þess að koma sér niður úr þeirri snöru sem hún hefur sjálf komið sér í. Það væri leið skynseminnar.

Kristinn H. Gunnarsson

DEILA