Alltaf eitthvað hjá björgunarsveitunum

Þessir herramenn láta nú ekki smá rok feykja sér svo glatt út á haf. Hvað þá nýja þakinu eða gamla.

Það er alltaf nóg að gera og nóg um að vera hjá Björgunarsveitunum okkar. Björgunarfélagið á Ísafirði vinnur nú hörðum höndum að því að smíða aftan í snjóbílinn sinn og félagar í Björgunarsveitinni Sæbjörgu unnu að því um síðustu helgi að skipta um þak á slökkviliðsstöðinni á Flateyri.

Sæbjörg var einnig að kaupa nýja snjósleða, 2019 árgerð „en er talað um að endurnýja á 3 ára fresti því þá er ennþá verðmæti í eldri sleðanum. Þannig að björgunarsveitin þarf ekki að leggja út það mikið í endurnýjun,“ sagði Magnús Einar Magnússon, formaður Sæbjargar þegar BB renndi við hjá honum. Við seljum tvo sleða í janúar og keyptum tvo nýja. Landsbjörg er með þær reglur að það verða að líða 3 ár áður en björgunarsveitir skipta um sleða og þá fá þær virðisaukaskattinn endurgreiddan. Þetta eru Artic cat High country sleðar, 153 cm að lengd. Það er ekki búið að kaupa búnaðinn á þá en við eigum gps tækin af hinum sleðunum og talsstöðvar og svo erum við búnir að panta aukasæti þannig að þetta verða tveggja manna sleðar.“

Fyrir stuttu fjárfesti sveitin einnig í nýjum bát sem heitir Stella. Magnús segir að báturinn lofi góðu, sveitin sé búin að prófa hann einu sinni en mótorinn er glænýr svo það þarf að keyra hann til. „Við vorum 9 talsins þegar við prófuðum hann og á 70% keyrslu sem við megum og við náðum góðri siglingu og báturinn fór vel í sjó. Það er nauðsynlegt að hafa bát í hverjum firði hérna því flest útköllin sem við fáum eru á bát. Á því tímabili sem gamli báturinn okkar var bilaður þá komu til dæmis fjögur útköll. Þannig að það er alveg pottþétt að við þurfum að eiga bát.“

Báturinn var skírður Stella og það kom ekki annað til greina sagði Magnús. Stella hans Guðna eins og sagt er á Flateyri hefur verið félagi í Björgunarsveit frá því hún var 12 ára gömul og hún segir að það hafi verið það skemmtilegasta sem hún gerði. Guðni maður hennar endurreisti Sæbjörgu við á sínum tíma og þess vegna heitir Björgunarsveitarhúsið Guðnabúð.

En félagar í Sæbjörgu voru uppi á þaki þegar blaðamann bar að garði. Þar mátti bæði sjá sveitamenn úr Önundarfirði sem og Lýðháskólanema en hinir síðarnefndu hafa verið duglegir við að mæta á fundi. „Þetta er verkefni fyrir bæinn,“ segir Magnús. „Við skiptum um þakið yfir björgunarsveitahúsinu í sumar og það hefði í raun þurft að skipta um allt þakið þá en bærinn á slökkvistöðina og þeir báðu okkur að sjá um vinnuna. Þeir útveguðu efni og við erum að nýta það núna að það sé svona vorveður í nóvember.“ Reyndar var hávaðarok þegar þetta samtal átti sér stað en það má vel kalla það vorvinda glaða og glettna enda hafðist það sama dag að koma þakinu á og ekkert fauk, enda hefði verið stutt að kalla úr björgunarsveit ef það hefði gerst.

„Það er gaman að nemar úr Lýðháskólanum mæti á fundi og gott fyrir sveitina. Til dæmis síðasta mánudag þá gátum við verið með æfingu hér innanbæjar og bara fyrir okkur vegna þess hve mörg við vorum og það er gaman að geta gert eitthvað annað en bara að vinna í Björgunarsveitastarfinu.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA