Afurðin – Rusl

Helga Dóra Kristjánsdóttir. Mynd: RÚV.

Á hverjum degi þurfum við að láta frá okkur rusl í einhverjum mæli. En hins vegar er það undir okkur sjálfum komið hvort við sköpum verðmæti úr því sem við látum frá okkur. Með jákvæðu hugarfari og athöfnum skilur á milli. Hvort okkar daglegi úrgangur sé rusl eða verðmæti. Með flokkun úrgangs erum við að búa til verðmæti sem nýtast í aðra þarflega hluti. Einfaldast væri hreinlega að minnka neyslu og spyrja hvort við þurfum allt þetta dót, í öllum þessum umbúðum.

Ég kalla á samfélagsbreytingu og ábyrgð íbúa. Það kemur mér og öllum öðrum við hvernig málum er háttað í okkar samfélagi. „Þitt er mitt og mitt er þitt“ og ég tel alveg víst að þú, lesandi góður, vitir hvað ég meina. Við þurfum að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og öllum hinum íbúunum á þessari jörð. Það kemur rækilega í bakið á okkur ef við sofnum á verðinum.

Fyrst er að byrja á sjálfum sér og sínu nánasta umhverfi. Flokkun sorps ætti að vera i forgangi á heimilum og minni hluti ætti að vera settur í „almennt sorp.“ Fræðslu um hvernig best er að haga flokkun er hægt að nálgast á netinu. Til dæmis hefur Ísafjarðarbær nýlega sett góðan sorpbækling á sína heimasíðu og Gámaþjónustan dreift honum á betri heimili bæjarins. Hins vegar mætti fyrirtæki sem þjónustar okkur Vestfirðinga í sorpmálum, standa sig mun betur í fræðslu um þessi efni og girða sig í brók, þegar að heimasíðunni kemur.

Þegar kemur að því að íbúar fara til starfa í fyrirtækjum í bænum, þá er það alveg undir hælinn lagt hvernig flokkun sorps er háttað. Það þarf nefnlega frumkvæði starfsmanna og ábyrgð yfirmanna, til að koma þeim hlutum í ásættanlegt horf. Það er ekki alveg þannig að það sé verið að mata okkur þegar við breytumst úr íbúum á heimilum og í „vinnandi fólk.“ Þjónusta bæjarins nær nefnilega til okkar, heima hjá okkur, en fyrirtækin verða að semja sérstaklega við sorpfyrirtækið. Þannig að þar vantar hvatan til að gera betur.

Flokkun sorps er líka mismunandi á milli sveitafélaga, þannig að við þurfum sífellt að vera að læra nýja siði, ef maður bregður sér af bæ. Þetta er vissulega bagalegt og þarf að samræma. Ég tala nú ekki um ef við umbreytumst í ferðamenn og heimsækjum vegasjoppur og fleiri ferðamannastaði. Þá er undir hælinn lagt hvort hægt sé að flokka ruslið. Ég spyr mig hvort við gerum ráð fyrir að almennum ferðamönnum sé ekki treystandi til flokkunar.

Ég hvet hér til frekari umræðu og virðingar á meðhöndlun alls úrgangs.

Helga Dóra Kristjánsdóttir.

DEILA