Vilja stofna ráðgjafarstofu með sama hlutverk og Fjölmenningarsetur

Fjölmenningarsetrið er staðsett í Vestrahúsinu á Ísafirði, þar sem fjölmargar aðrar stofnanir eru til húsa, s.s. Rauði krossinn.

Á bæjaráðsfundi í Ísafjarðarbæ þann 1. október var lögð fram til umsagnar tillaga til þingsályktunar um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda í Reykjavík. Í tillögunni kemur fram að Alþingi vilji fela félags- og jafnréttismálaráðherra að koma á fót ráðgjafarstofu sem hefði það hlutverk að bjóða innflytjendum upp á aðgengilega ráðgjöf og upplýsingar er varða réttindi þeirra, þjónustu og skyldur. Félags- og jafnréttismálaráðherra er gert að hafa náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og leiðandi sveitarfélög í þessum efnum um uppbyggingu og rekstur ráðgjafarstofunnar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bendir í ályktun sinni á, að á Ísafirði sé starfrækt ríkisstofnunin Fjölmenningarsetur sem hafi nákvæmlega sama hlutverk og fyrirhugaðri ráðgjafarstofu er ætlað að sinna.

Í þingsályktunartillögunni er vikið að störfum Fjölmenningarseturs og sagt að sérstaklega þurfi að huga að þeirri skörun sem gæti orðið á verkefnum þessara stofnanna og hvort gera þurfi lagabreytingar vegna þessa, áður en ráðgjafarstofa innflytjenda taki til starfa. Þá er skrifað að langflestir innflytjendur séu á höfuðborgarsvæðinu. Þó sé mikilvægt að ráðgjafarstofan fyrirhugaða nýtist öllum óháð staðsetningu og því verði hugað vel að upplýsingatækni og unnið verði að því að þjónustu verði hægt að veita í gegnum fjarfundabúnað.

Í tillögunni segir ennfremur að rekstri ráðgjafarstofu innflytjenda væri best fyrir komið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, einkum með tilliti til kostnaðar við stofnun slíkrar stofu en vonast er til að samstarf náist við sveitarfélög um rekstur og er þá viðbúið að einhver þjónusta færist til stofunnar frá öðrum sviðum og stofnunum og fjármunir fylgi með. Til viðmiðunar eru 55 milljónir nefndar sem árlegur kostnaður við ríkisstofnun með fimm starfsmenn.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ályktar eftirfarandi: „Af greinargerð tillögunnar má ráða að það eina sem þeir sem að henni standa hafa á móti núverandi fyrirkomulagi, sem bundið er í lög um málefni innflytjenda nr. 116/2012, er að stofnunin er staðsett á Ísafirði en ekki í Reykjavík.“

„Fjölmenningarsetur var opnað sem tilraunaverkefni árið 2000 en hefur verið undirstofnun velferðarráðuneytis síðan 2012. Alla sína tíð hefur stofnunin verið fjársvelt og mátt þola allmargar atlögur að tilveru sinni, nú síðast þann 18. september þegar umrædd tillaga til þingsályktunar var lögð fram. Þrátt fyrir það hefur stofnunin sinnt veigamiklu þjónustuhlutverki við innflytjendur um allt land.
Bæjarstjórn leggur til að fallið verði frá hugmyndum um nýja stofnun sem hefur nákvæmlega sama hlutverk, en þess í stað verði rekstur Fjölmenningarseturs efldur, meðal annars með þjónustuútibúum þar sem þurfa þykir, t.d. á höfuðborgarsvæðinu.“

DEILA