Vegagerðin: Þ-H leiðin best og ódýrust

Teigsskógur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skýrsla Vegagerðar ríkisins um samanburð á þremur leiðum í vegagerð um Gufudalssveit var birt nú fyrir stundu. Samkvæmt henni er Þ-H leiðin bæði ódýrust og best. Hinir tveir valkostirnir voru R leiðin, það er brú yfir Þorskafjörð utarlega og veg um Reykjanesið í gegnum Reykhóla,   og D2 leið sem færir jarðgöngin í gegnum Hjallaháls ofar í hálsinn til þess að stytta göngin og gera þau ódýrari, en Multiconsult hafði í sinni skýrslu bent á þessa kosti.

4 milljarðar króna og 3 ár

Niðurstaða Vegagerðarinnar er afgerandi. Þ-H leiðin er um 4 milljörðum króna ódýrari en R leiðin og verður lokið 3 árum fyrr, sé gert ráð fyrir því að nýja leiðin, R leiðin, þurfi að fara í umhverfismat. Þá kemur líka fram að umhverfislega séð er Þ-H líka best af þessum þremur valkostum.

R leiðin, heitir í skýrslu Vegagerðarinnar A3, þar sem smávægilegar lagfæringar þurfti að gera á tillögu Norðmannanna, er 4,8 – 7 km lengri en Þ-H leiðin og 3,9 milljórðum króna dýrari. A3 kostar 11,2 milljarða króna skv. mati Vegagerðarinnar. Þessi kostnaðaraukning skiptist þannig að 1,8 milljarður króna er hækkun á kostnaði við vegagerðina frá kostnaðarmati Multiconsult og brúarþátturinn hækkar um 2,1 milljarð króna. Kostnaðurinn við Þ-H leiðina hefur verið uppreiknaður og er nú 7,3 milljarður króna.

D2 leiðin er dýrust og er talin kosta 13,3 milljarða króna. Jarðgöngin kosta 8,3 milljarða króna, vegir 3 milljarða króna og brýr 2 milljarða króna. Þá segir í skýrslu Vegagerðarinnar að „plan- og hæðarlega hluta leiðar A3 er óhagstæð í samanburði við leið Þ-H þar sem langhalli er í mesta leyfilega bratta (7%) á þremur stöðum á leiðinni.“ Vegagerðin telur  „nauðsynlegt að endurtaka umferðaröryggismat á þeim 3 valkostum sem hafa verið til skoðunar í tengslum við breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps.“

Umhverfismál  

Heildarefnisþörf er mest við A3 leiðina, 1.440 þúsund rúmmetrar og minnst við Þ-H leið, 300 þúsund rúmmetrum minna. Úr námum þarf 970 þúsund rúmmetra í A3 leiðinni en aðeins 170 þúsund rúmmetra við Þ-H leiðina.

A3 leiðin mun liggja í 28 km um verndarsvæði, en Þ-H leiðin 20,8 km.

Kolefnisspor framkvæmdanna á áætluðum líftíma þeirra er mest vegna A3 leiðar eða 64.460 tonn af CO2. Kolefnisspor Þ-H leiðar er metið sem 54.777 tonn af CO2. Minnst er það vegna D2 eða 42.939 tonn. Þá er líka reiknuð koldíoxíð losun á opnunarári framkvæmdanna og reynist það fyrir A3 vera 460 tonn en 381 tonn fyrir Þ-H leiðina. Fyrir D2 jarðgangaleiðina er losunin 414 tonn.

2 – 3 ár

Vegagerðin telur unnt verði af hefja framkvæmdir við Þ-H leiðina í ágúst 2019 að undangenginni verkhönnun og útboði og ljúka framkvæmdum haustið 2022.

varðandi A3 leiðina þá yrði útboðið í maí 2022 , eða um það leyti sem framkvæmdum væri að ljúka ef Þ-H leiðin verður fyrir valinu, og verki lokið haustið 2025. Ef ekki þarf umhverfismat telur Vegagerðin að tíminn styttist um 1 ár og verkinu ljúki haustið 2024.

DEILA