Umgengni veiðiréttarhafa um okkar dýrmætu laxastofna

Um alllanga hríð hafa sjálfskipaðir gærslumenn íslenska laxsins haft sig mikið frammi í fjölmiðlum og opinberri umræðu vegna þeirra miklu vár sem þeir telja að stafi frá laxeldi í sjókvíum. Mikið strandhögg varð í þeirra baráttu þegar framleiðsluleyfi til laxeldis voru felld úr gildi í síðustu viku. Með lögum um lax og silungsveiði frá 1970 var landeigendum skylt að stofna veiðifélög sem fara með nýtingarréttinn á einstökum laxastofnum og annast útleigu á veiðiréttinum sem og skiptingu tekna til landeiganda. Lögin hafa skipt afar miklu fyrir afkomu bænda í mörgum sveitum. En hvernig hefur gengið til með verndum og nýtingu á íslenskum laxastofnum síðustu hálfa öld  ?

Jú, í flestum laxveiðiám hafa orðið stórskaðlegar breytingar á erfðamengi laxsins vegna ofveiði á stórlaxi (lax sem dvelur 2-3 ár í sjó). Stórlaxinn kemur fyrst í árnar á vorin og verður því fyrir mun meira veiðiálagi en smálaxinn, sem skilar sér í meira mæli úr hafi þegar líður á sumarið. Vegna ofveiði hefur hlutfall af stórlaxi í veiði hérlendis lækkað um 60% á síðustu 40 árum. Frá því er greint í nýlegri umfangsmikilli úttekt á ástandi laxastofna við Norður Atlandshaf (ICES – WGNAS, 2018). Á árunum 1970-1980 var annar hver veiddur fiskur stórlax en á síðustu 10 árum hefur minna en fimmti hver fiskur verið stórlax. Í Noregi og Skotlandi hefur hlutfall stórlaxa í veiði haldist óbreytt undanfarin 50 ár. Hvernig stendur á þessum mismun? Ástæðan er a.m.k. ekki sú að stórlaxinn sé að drepast í hafinu eins og margir veiðiréttarhafar halda fram. Skýringin liggur í þeim lögum sem hafa gilt um starfsemina hérlendis og ekki síður meðvirkni eftirlitsstofnanna. Fram til ársins 2006 voru veiðifélög einráð um að ákveða veiðiálag (t.d. fjölda veiðistanga). Eftir því sem stórlaxi fækkaði áþreifanlega hefði verið eðlilegt að minnka veiðiálag. En slíkar ákvarðanir var erfitt að taka fyrir veiðifélögin og afar fátítt, því það myndi sjálfkrafa leiða til lækkunar á útleiguverð veiðiréttinda og lægri arðgreiðslum. Með lagabreytingu 2006 þurfa veiðifélög að leggja fram nýtingaráætlun um framkvæmd stangveiði, sem Fiskistofa þarf að staðfesta að fenginni umsögn frá Hafrannsóknastofnun. Nú hafa fleiri veiðifélög samþykkt að taka upp þau tilmæli að stórlaxi sé sleppt. Ennþá er óvíst um hvort það dugi til að endurheimta upprunalegt erfðamengi laxastofna. Rannsóknir benda til að veiði-sleppa aðferðin hafi veruleg áhrif á lífslíkur og hrygningarhæfni laxsins. Því þarf líklega að grípa til rótækari aðgerða svo upprunalegt erfðamengi glatist ekki að eilífu. Hjá okkar nágrannaþjóðum er hiklaust beitt veiðibanni og friðunum á einstaka laxastofna þegar ljóst þykir að hrygningarstofninn sé undir sjálfbærnimörkum.  Ef veiðiréttarhöfum og eftirlitsstofnunum er alvara um velferð íslenska laxsins ætti að taka upp sambærilegar veiðistjórnun hérlendis. Meðan það er ekki gert verður að líta svo á að gæta hagsmuna veiðiréttarhafa á kostnað okkar dýrmætu og ómetanlegu laxastofna. Margt bendir til að laxastofnar séu  orðnir viðkvæmari fyrir miklum sveiflum í umhverfisskilyrðum eftir að erfðasamsetningin er orðin einsleit og gerbreytt. Ein afleiðing af þeirri breytingu gæti verið meiri sveiflur í laxveiði, sem allir laxveiðimenn hafa orðið áþreifanlega varir við undanfarin ár. Nei, veiðiréttarhafar ættu að líta sér nær þegar kemur að umhyggju fyrir velferð íslenska laxsins. Staðreyndin er að með tilkomu laxeldisins mun fjármagn til vöktunar og rannsókn á villtum laxastofnum margfaldast. Með síauknum kröfum um sjálfbærni og umhverfisvernd á báða bóga gæti laxeldi og stangveiði farið vel saman.

Jón Örn Pálsson

Tálknafirði