Þjóðminjasafnið leitar að heimildamönnum

Þau vita það sem reynt hafa að það getur verið gaman að grúska í þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins. Hluti af því er á netinu og þar er hægt að hlusta á gengna samferðamenn, hlusta á sögur og fræðast um lifnaðarhætti fyrri ára og alda. En þjóðháttasafnið er ekki bara skemmtilegt, það gegnir mikilvægu hlutverki fyrir fræðimenn sem rannsaka samtíma og fortíð. Þess vegna sendir Þjóðminjasafnið reglulega út spurningaskrár þar sem leitað aðstoðar almennings við að safna upplýsingum. Nýjasta spurningaskráin fjallar um loftslagsbreytingar og framtíðina, enda málefnið mikilvægt og mjög aðkallandi.

Spurningaskránna má finna hérna og það er mikilvægt að sem flestir svari. Undir tenglinum má finna frekari upplýsingar og leiðbeiningar en einnig er hægt að svara í tölvupósti eða fá eintak á pappír sent með venjulegum pósti. Skráin er unnin í samvinnu við þjóðháttasöfn í Noregi og Svíþjóð. Með þessari vinnu er verið að safna upplýsingum um afstöðu fólks til loftslagsbreytinga af mannavöldum, hvaða áhrif þær hafa á líf þess og hvernig það ímyndar sér framtíð með eða án loftslagsbreytinga.

Umræður um loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa lengi verið í sviðsljósinu og kannski aldrei meira en núna. Hnattræn hlýnun getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir allt líf á jörðinni, samfélög manna og daglegt líf, en samkvæmt rannsóknum á veðurfari eru loftslagsbreytingar af mannavöldum nú þegar til staðar.

Spurningaskráin er liður í þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands sem staðið hefur óslitið frá árinu 1960 og hafa flest svörin verið slegin inn í rafrænan gagnagrunn sem hægt er að skoða á vefslóðinni http://www.sarpur.is/ . Frekari upplýsingar eru veittar í síma 530 2294 en einnig má senda tölvupóst á agust@thjodminjasafn.is.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA