Óbyggðanefnd : Drangajökull verði þjóðlenda

Reyðarbunga á Drangajökli.

Krafa fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendu á svæði 10A barst óbyggðanefnd 5. október 2018, sbr. 10. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Krafan nær til þess hluta Drangajökuls sem er innan svæðisins. Tilkynning um kröfuna var birt í Lögbirtingablaðinu 16. október 2018. Skorað er á þá sem telja til eignarréttinda á því landsvæði sem fellur innan þjóðlendukröfusvæðis íslenska ríkisins að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 1. febrúar 2019.

Á kröfusvæðinu eru eftirfarandi sveitarfélög: Strandabyggð, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og hluti Húnaþings vestra, þ.e. fyrrum Bæjarhreppur.

Af hálfu íslenska ríkisins er þess krafist að sá hluti Drangajökuls, sem er innan Árneshrepps og innan marka kröfulýsingarsvæðis 10A, , sé þjóðlenda innan eftirfarandi þjóðlendukröfulínu: Upphafspunktur er við Hrollleifsborg (1), og er miðað við að hann sé við jökuljaðar og á sýslumörkum, sveitafélagamörkum og merkjum jarðanna Skjaldabjarnarvíkur í Árneshreppi og Sæbóls í Reykjarfirði, fyrrum Grunnavíkursveit, nú Ísafjarðarbæ. Þaðan er jökuljaðri Drangajökuls fylgt suður uns komið er að þeim stað, punktur (2), sem er á sýslumörkum Strandasýslu og Norður‐Ísafjarðarsýslu. Þaðan er farið norður eftir sýslumörkum og sveitafélagamörkum sem jafnframt eru mörk kröfulýsingarsvæðis og svo til norð‐austurs, eftir sömu mörkum að Hrollleifsborg, sem er upphafspunktur.

Að þeim hluta Drangajökuls sem íslenska ríkið gerir þjóðlendukröfu í, liggja eftirfarandi jarðir;   Sæból í Reykjarfirði, fyrrum Grunnavíkursveit, nú Ísajarðarbær, Skjaldabjarnarvík, Drangar og Engjanes, allar í Árneshreppi og jörðin Skjaldfönn í fyrrum Nauteyrarhreppi, nú Strandabyggð. Engin þessara jarða lýsir merkjum sérstaklega til jökuls eða jökulbrúnar en þess skal þó getið að landamerkjabréf hefur ekki fundist fyrir jörðina Skjaldfönn. Frá upphafspunkti er kröfulínan afmörkuð eftir jökuljaðrinum  og er miðað við hann  eins og hann  var  við gildistöku laga nr. 58/1998.

Af hálfu íslenska ríkisins er byggt á því að það svæði sem er innan þjóðlendukröfulínu, Drangajökull, teljist landsvæði utan eignarlanda í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 58/1998.   Krafa þessi er byggð á því að jöklar teljist almennt til svæða utan eignarlanda, og er þá vísað til almennra athugasemda er fylgdu frumvarpi til þjóðlendulaga, sem og til kafla 4.6. í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar.

DEILA