Ný útihreystitæki væntanleg á Suðureyri

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 23. október var lagt fram minnisblað Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, þar sem farið var yfir breytingar sem gera þyrfti á uppbyggingasamningi við íþróttafélagið Stefni á Suðureyri. Í minnisblaðinu segir að bæjarstjórn hafi samþykkt í byrjun febrúar 2018 að gera uppbyggingarsamning við Stefni en félagið stefndi á að setja upp útihreystigarð. Síðar óskaði formaður félagsins, Svava Rán Valgeirsdóttir, eftir því að undirskrift samningins yrði frestað, þar sem staðsetning tækjanna var óljós.

Samkvæmt minnisblaðinu var upphaflega hugmyndin sú að tækin yrðu staðsett í tengslum við göngustíga í Súgandafirði. Íþróttafélagið Stefnir óskaði svo eftir svæði fyrir tækin rétt innan við tjörnina við Túngötu en þar sem fyrirhugað er heildarskipulag á svæðinu óskaði félagið eftir því að samningnum yrði breytt og það fengi hlut Ísafjarðarbæjar greiddan í ár. Ástæðan var sú að þegar væri búið að kaupa tækin en þau yrðu sett niður á næsta ári þegar skipulag svæðisins lægi fyrir.

Uppbyggingarsamningurinn milli Ísafjarðarbæjar og Stefnis hljóðar upp á að Stefnir setji upp útihreystitæki á Suðureyri 2018. Ísafjarðarbær sér svo um að gera göngustíg meðfram leiktækjunum frá Túngötu og að Hlíðarvegi. Gróf kostnaðaráætlun felur í sér að fimm útihreystitæki kosti þrjár milljónir og jarðvegsvinna og undirlag aðrar þrjár milljónir, samtals sex milljónir. Ísafjarðarbær greiðir helming þessarar upphæðar og hinn helmingurinn felst annarsvegar í 25% vinnuframlagi frá Stefni og hinsvegar í 25% fjármagni frá Stefni og öðrum.

Bæjarráð samþykkti að uppbyggingarsamningi við Íþróttafélagið Stefni á Suðureyri yrði breytt með þeim hætti að Ísafjarðarbær greiddi sinn hlut í uppbyggingu útihreystisvæðisins á Suðureyri með því að greiða hluta af fjárhæð uppbyggingasamningsins, samtals kr. 2.700.000,-, vegna kaupa á hreystitækjum á árinu 2018, ekki jarðvegsvinnu og undirlag eða uppsetningu hreystitækjanna. Eftirstöðvar uppbyggingasamningsins, kr. 300.000,- yrðu greiddar eftir lokaskýrslu í kjölfar úttektar á framkvæmdinni og þegar fulltrúi Ísafjarðarbæjar hefði staðfest að framlag Stefnis til verkefnisins væri fullnægjandi.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA