Niðurstöður forvals vegna Bolafjalls

Jón Páll hreinsson, bæjarstjóri dregur úr hattinum. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.

Sextán umsóknir bárust í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun útsýnisstaðar á Bolafjalli fyrir ofan Bolungarvík.

Ein umsóknanna uppfyllti ekki skilyrði forvalsins en valnefnd skipuð einum fulltrúa sveitarfélags og tveimur fulltrúum Verkís mat umsóknir og því var dregið úr fimmtán umsóknum í votta viðurvist.

Þrjú teymi voru dregin upp úr hattinum:

  • Efla og Landark,
  • Landmótun, Argos og Sei,
  • Studio Arnhildur Pálmadóttir & KBS.

Markmið verkefnisins er að gera útsýnisstaðinn á Bolafjalli að eftirsóknaverðum ferðamannastað á Vestfjörðum.

Leitast er eftir að fá fram hugmyndir að hönnun og efnisnotkun útsýnispalls sem verður einstakur í sínum flokki hvað varðar fagurfræði og staðsetningu. Pallurinn skal falla vel að umhverfinu og hlutföll og stærðargráða hans skulu endurspegla það.

Enn fremur er leitast eftir því að fá fram hugmyndir að skipulagi áfangastaðar sem mun nýtast við gerð deiliskipulags. Skipulagið mun stuðla að því að heimsókn á Bolafjall verði mikilfengleg og einstök upplifun í alla staði.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að nýta allar tillögur, að hluta til eða í heild. Sveitarstjórn stefnir að því að klára áframhaldandi skipulagsvinnu og hönnun í samvinnu við vinningshafa og skil eru áætluð í desember.

DEILA