N4 fjallar um atvinnulífið á Vestfjörðum

Bolungarvíkurhöfn.

Sjónvarpsstöðin N4 áformar að gera þáttaröð um atvinnulífið á Vestfjörðum og hefjast tökur á næstu vikum en undirbúningur hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Yfirskrift þáttanna er Atvinnupúlsinn á Vestfjörðum og er um að ræða 30 mínútna þætti þar sem kastljósinu er sérstaklega beint að atvinnulífinu fyrir vestan.

Umsjónarmenn þáttanna eru María Björk Ingvadóttir og Karl Eskil Pálsson en þau þekkja bæði atvinnulífið á landsbyggðunum vel, eftir að hafa starfað við fjölmiðlun í langan tíma.
„Áður höfum við á N4 gert Atvinnupúlsinn í Skagafirði og Atvinnupúlsinn í Eyjafirði, sem féllu í mjög góðan jarðveg hjá áhorfendum og einnig gerðum við svipaða þætti um nýsköpun í sjávarútvegi. Í vestfirsku þáttunum verður rætt við fólk sem þekkir atvinnulífið í þaula, auk þess sem fyrirtæki og stofnanir verða heimsótt. Atvinnulífið á Vestfjörðum er um margt fjölbreytt og við viljum sýna fram á þá staðreynd. Síðast en ekki síst höfum við mikinn áhuga á frumkvöðlum, sem eru fjölmargir á Vestfjörðum,“ segir María Björk Ingvadóttir.

„Við vinnum þessa þætti í nánu samstarfi við heimafólk, sem veit hvað klukkan slær í atvinnumálum svæðisins. Við erum auk þess svo heppin að fá til liðs við okkur Jóhannes Jónsson kvikmyndagerðarmann á Ísafirði, sem þekkir hvern krók og kima fyrir vestan. Fyrir heimafólk verða þessir þættir líka áhugaverðir, það sýndi sig glögglega í eyfirsku og skagfirsku þáttunum, þegar kafað var ofan í atvinnulífið,“ segir Karl Eskil Pálsson.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA