Lýðháskólinn á Flateyri: skólasetning Helenu Jónsdóttur

Helena Jónsdóttir, skólastjóri.

Lýðháskólinn á Flateyri er orðinn að veruleika og skólinn hefur tekið til starfa. Það er eitt af góðu tíðindinum á Vestfjörðum á þessu ári að þessi hugmynd hafi náð  því að komast í framkvæmd. Skólasetningarræða Helenu Jónsdóttur gefu dálitla innsýn inn í þetta verkefni og hér birtist hún:

Virðulegur forseti, kæru nemendur og aðrir gestir

 

Það er afar stolt og hamingjusöm skólastýra sem stendur hér fyrir framan ykkur í dag. Síðastliðinn miðvikudag tókum við á móti þeim 30 nemendum sem fylla bekki Lýðháskólans á Flateyri á hans fyrsta skólaári. Nemendum sem ég vil leyfa mér að kalla kalla íslands- já eða jafnvel AL-heimsmeistara í stökki.

Leyfið mér aðeins að útskýra.

  1. apríl síðastliðinn opnaði Lýðháskólinn á Flateyri fyrir umsóknum og um leið hófst mikið kynningarátak á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

Ég geri ráð fyrir að þið sem hér eruð í dag hafið flest tekið eftir auglýsingum, kynningarefni og fjölmiðlaumfjöllun um hinn nýja Lýðháskóla? Annað held ég hreinlega að hafi ekki verið  hægt  😊

En ég held að ekkert okkar, nema ef vera skyldi stjórnarformaðurinn okkar –  sem hefur af svona skóla-stofnunar-stússi töluverða reynslu –  hafi getað séð fyrir þau jákvæðu viðbrögð sem skólinn fékk strax í upphafi. Að umsóknir myndu berast jafn skjótt og þær gerðu og í því magni sem að raunin varð.

Það er nefnilega svo að strax í apríl bárust nærri 25 umsóknir um skólavist fyrir þetta fyrsta skólaár Lýðháskólans. Og 20 aðrar fylgdu eftir fyrir 21. júní þegar fresturinn rann formlega út.

Þegar farið var af stað með kynningarátakið var skólinn ennþá verk í vinnslu, og að mestu leiti aðeins til í höfðinu á þeim brautryðjendum sem að hugmyndinni stóðu.

Með samhentu átaki og mikilli samvinnu hafa meðlimir stjórnar skólans, starfsfólk og óteljandi margir aðrir, unnið sleitulaust að því að hafa tilbúna alla þá þætti sem nauðsynlegir eru til þess að hefja þetta fyrsta skólaár.

Og það hefur ekki verið lítið verk.

Hér hefur verið komið upp glæsilegu skólahúsnæði sem er ekki lengur bara hugmynd, heldur raunveruleg umgjörð, raunverulegs skóla. Húsgögn, tölvur og tækni- og hugbúnaður er fyrir hendi. Námsbrautir og ítarlegar námskeiðslýsingar, kennslugögn og gæðakerfi hafa verið útbúin. Og kennarar, hver og einn sérfræðingur á sínu svið, manna kennslu á námskeiðum.

Og nú það sem öllu máli skiptir! Nemendur! Því skóli er jú ekkert án nemenda.

Og langar mig þá að beina tali mínu til ykkar, elsku nemendur.

Í júní sendum við ykkur bréf sem byrjaði á þessa leið:

Áður en þú veist af verður þú komin/n á Flateyri!

Og nú eruð þið hingað komin. Þið eruð komin heim. Og þá er ekki úr vegi að bjóða ykkur hjartanlega velkomin.

Og komum við þá aftur að útskýringunni. Á alheimsmetinu í stökki munið þið!

Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fengust á internetinu og í kjölfar símaviðtals sem ég átti við alla umsækjendur tölduð þið ykkur hafa nægar upplýsingar til þess að staðfesta umsókn ykkar og hefja undirbúning að dvölinni hér í vetur.

Og ég verð að fá að segja þetta.

Ég hef ávallt verið talin óhrædd við ný ævintýr, að hella mér út í óvissuna og dýfa mér í hálftóma sundlaugina…..elskulegri móður minni til mikillar hrellingar.

Ég hreinlega veit ekki hvort að ég þori að viðurkenna það en ég er ekkert endilega viss um að ég hefði þorað að taka þetta stökk sem þið hafið nú tekið. Ég dáist að ykkur fyrir að taka þetta risavaxna stökk, sem krefst svo sannarlega hugrekkis, áræðni og mikils vilja til þess að takast á við nýjar og óþekktar aðstæður. Þið eruð hetjur dagsins! Og þökk sé ykkur er Lýðháskólinn á Flateyri að hefja sitt fyrsta skólaár.

Flateyri verður heimili okkar næsta vetur. Þið komið til með að búa með hópi fólks sem þið hafið líklega aldrei hitt áður og vera þátttakendur í afar áhugaverðu og fjölbreyttu samfélagi nemenda, kennara og starfsfólks Lýðháskólans á Flateyri ásamt íbúum bæjarins.

Í ykkar fríða flokk hefur valist fjölbreyttur hópur einstaklinga. Þið eruð á ólíkum aldri, með ólíkan bakgrunn, með ólíkar væntingar og ólíkar hugmyndir um lífið og það sem við munum taka okkur fyrir hendur hér í vetur.

En öll eigið þið það sameiginlegt að hafa þorað í þetta risastóra stökk.

Þetta fyrsta ár í lífi Lýðháskólans á Flateyri verður nefnilega sögulegt. Og tilraunakennt. Og spennandi. Og þið eruð þátttakendur í því. Já eða öllu heldur brautryðjendur.

Þið og ykkar vera hér næsta vetur kemur til með að leggja grunnin að því sem þessi skóli verður til frambúðar. Það er ykkar að móta þann takt sem settur verður, setja mark ykkar á þau gildi sem við setjum okkur. Að glæða skólann og þetta fallega samfélag lífi.

Gerið ykkur klár, því þetta verður eitthvað!   😊

Nú höfum við þegar verið saman í 2 daga og ég verð að segja að þessar fyrstu stundir okkar saman lofa afar góðu.

Ég held að ég geti talað fyrir hönd okkar Önnu Siggu – kennslustjórans okkar sem hefur verið hér eins og klettur mér við hlið síðustu 2 mánuði – , fyrir hönd meðlima stjórnar skólans, sem hafa unnið eins og bersekjar að því að láta þetta gerast, og fyrir hönd Flateyringa og íbúa alls Ísafjarðarbæjar, að okkur hlýnar um hjartaræturnar svo um munar að hafa loksins fengið ykkur á staðinn. Að sjá þetta fallega lýðháskólabarn, fæðast og verða að veruleika með ykkar komu hingað, er ólýsanleg tilfinning.

Við tölum jafnan um Lýðháskólann á Flateyri með því að segja: Svo miklu meira en bara skóli.

Við höfum lagt okkar að mörkum til að tryggja þær undirstöður sem þörf er á fyrir hvern skóla. En það verður ykkar elsku nemendur að glæða hann lífi. Að tryggja að hér verði ekki bara starfræktur skóli heldur eitthvað sem er svo miklu meira en bara skóli!

Já, þessir fyrstu dagar lofa góðu. Nemendur eru þegar búnir að skipta með sér verkum þegar kemur að. Kosið hefur verið í skemmtinefnd og íþróttanefnd og settur hefur verið saman kvikmyndaklúbbur. Yfir 50 hugmyndir hafa þegar komið frá ykkur, elsku nemendur, um viðburði og önnur skemmtilegheit í samvinnu við íbúa bæjarins.

Og þá er komið að því að tala til ykkar kæru íbúa Flateyrar.

Við höfum á síðustu mánuðum oft fengið þá spurningu hvers vegna Flateyri hafi orðið fyrir valinu sem staðsetning á nýjum lýðháskóla?

Mér hefur alltaf fundið spurningin hálf óþörf. Asnaleg eiginlega. Í mínum huga er svarið nefnilega afar augljóst.

Flateyri er fullkominn staður fyrir samfélag tengdu lýðháskóla. Náttúran er hér allt umlykjandi með öllum sínum möguleikum og auðlindum. Sjórinn er ávallt innan seilingar, hér er stutt upp í fjall og á innan við fimm mínútna göngu ertu kominn úr alfaraleið, út í óbyggðir. Við slíkar aðstæður er ekki ólíklegt að hugurinn fari á flug, við förum að sjá nýja möguleika, að úr verði töfrar, sem geta búið með okkur það sem eftir er lífsins.

Elsku Flateyringar. Takk fyrir að leyfa okkur að vera hér. Takk fyrir að taka okkur opnum örmum!

Lýðháskóli þrífst ekki í tómarúmi. Hann nærist á því samfélagi sem hann byggir, gefur vonandi og tekur og glæðir samfélagið auknu lífi. Að virkja samfélagið til þátttöku í því starfi sem fram fer, bæði utan og innan hefðbundins skólatíma. Slíkt er markmið okkar.

Þið hafið svo sannarlega tekið lýðháskólanum opnum örmum. Mér er skapi næst að tala um ættleiðingu  😊

Þetta verkefni hefði ekki orðið til án samvinnu og þátttöku og við þökkum ykkur öllum kærlega fyrir.

Nú svo má ekki gleyma þeim kennurum sem hafa ákveðið að vera með okkur í vetur. Áður en opnað var fyrir umsóknir í apríl höfðum við þegar sett saman lista yfir um 30 námskeið sem eru mönnuð af yfir 30 kennurum, á 2 námsbrautum sem verða kenndar í skólanum næsta vetur.

Og ég get lofað ykkur því að kennarar fengu ekki langan tíma til umhugsunar. Símtalið barst, þeir svöruðu kallinu. Vel gert ….. segi ég.

Þakklæti – er okkur sem stöndum að þessu verkefni – ofarlega í huga fyrir vilja ykkar í að taka þátt og miðla af þeirri reynslu sem þið búið yfir. Án ykkar þátttöku stæðum við ekki hér í dag.

Að lokum langar mig að þakka stjórn félagsins og ekki síst forsprakka þessa verkefnis og formanni stjórnar Runólfi Ágústssyni fyrir að hafa ákveðið að veðja á mig til að taka við keflinu hér í janúar síðastliðnum og fyrir það óeigingjarna starf við þetta magnaða fólk hefur unnið hér síðustu mánuði og ár.

Að öllu þessu sögðu er aðeins eitt eftir.

Mig langar til að biðja viðstadda um að standa upp.

Fyrir hönd stjórnar skólans, nemenda, starfsfólks og kennara lýsi ég Lýðháskólann á Flateyri settann!

Megi skólinn þroskast og dafna og verða að einhverju stórkostlegu. Já verða eitthvað sem er svo miklu meira en bara skóli  😊

Að þessu sögðu langar mig að biðja viðstadda að ganga úr húsi. Okkar bíður fjölbreytt dagskrá um alla Flateyri. Förum í heimsókn!

DEILA