Loftslagsmál: Stefnan er lóðbeint upp í helvíti á Jörð

Ingi Björn Guðnason. Mynd:Gunnar Marel Hinriksson.

„Það er fullkomnlega galið að eignast börn inn í þennan heim eins og þróunin í loftslagsmálum er.“ Þannig komst kunningi minn að orði fyrir fjórum árum þegar við sátum yfir kaffibolla hér á Ísafirði. Þessi kunningi minn veit hvað hann syngur. Hann hefur fylgst náið með loftslagsmálum í áratugi. Þessi setning hans hefur setið í mér æ síðan, kannski vegna þess að ári áður en við sátum yfir lattebollanum í miðbæ Ísafjarðar varð ég faðir.

1,5 – 2,0° á selsíus

Undanfarna daga hef ég oft hugsað til þessa samtals, og skal engan undra því þann 8. október gaf Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna út martraðarkennda skýrslu um þróun hlýnunarinnar. Skýrslan er unnin í framhaldi af Parísarsamkomulaginu sem undirritað var með pompi og prakt fyrir tveimur árum. Þar sameinuðust flestar þjóðir heims um það markmið að stöðva aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda og halda hnattrænni hlýnun innan við 2° C að meðaltali miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu. Samkvæmt Parísarsamkomulaginu skal einnig stefnt að því að hækkunin verði ekki meiri en 1,5° C. Nýju skýrslunni frá Loftslagsnefndinni er ætlað að kanna hvað þarf til að ná lægra markmiðinu og hve mikið verra ástandið verður aðeins hærra markmiðið næst. Miðað við þróunina er hreint ekki líklegt að það náist enda hefur útblástur aukist frá undirritun Parísarsamkomulagsins.

Það er dapurlegt til þess að hugsa að afleiðingar losunar gróðurhúsalofttegunda á loftslagsbreytingar hafa verið kunnar í áratugi (Ríósáttmálinn var undirritaður 1992, Kyotobókunin 1997 og hokkíkylfugraf Michael Mann og félaga kom úr 1999). Samt gerum við enn fjarstæðukenndar kröfur um áframhaldandi neyslu og lifistandart með tilheyrandi orkusóun og flutningi matvæla og fólks.

Sláandi atriði úr skýrslunni

Höfundar skýrslunnar hamra á því að afleiðingar loftslagsbreytinganna versni eftir því sem hitastigið hækkar. Hvert einasta brot úr gráðu hefur áhrif! Öfgakennt veðurfar færist í aukana, með háu hitastigi og óveðrum, þetta ástand hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar í formi sjúkdóma og fátæktar: „Áætlað er að áhættuþættir vegna loftslagsbreytinga fyrir heilsufar, öryggi, lífsafkomu, fæðuöryggi, vatnsforða og hagvöxt muni aukast  með hnattrænni hlýnun um 1,5° C og aukast enn frekar við 2° C,“ eins og segir orðrétt í skýrslunni í þýðingu minni.

Hlýnun upp á 1,5°C skapar mun öruggara umhverfi en 2°C en er samt mun óöruggara umhverfi en er í samtímanum. Ef 1,5°markið næst verða 10 miljónir manna í minni hættu af hækkun sjávarborðs. Fleiri hundruð miljóna manns gætu sloppið við sára fátækt. Allt að 50% færri jarðarbúar glíma við vatnsskort. Komist yrði hjá minnkun afla úr sjó um 1,5 miljónir tonna. 10-30% kóralrifja mætti bjarga. Komið yrði í veg fyrir bráðnun sífrerasvæða tuttugu sinnum stærri en Ísland. Helmingi færri plöntur og dýrategundir verða útdauðar.

Með öðrum orðum, ástandið verður hryllilegt ef hærra markmið Parísarsamkomulagsins næst, talsvert betra ef lægra markmiðið næst en samt skelfilegt.

Annað sláandi atriði. Til að ná markmiðunum, hvort sem það eru þau efri eða neðri, dugar ekki að draga úr útblæstri og hætta honum. Eina leiðin til að ná markmiðinu er að binda koltvísýring í gríðarlega miklu magni. Það dugar sem sagt ekki að sleppa beinsíngjöfinni, við þurfum líka að stíga fast á bremsurnar. Bindingin þarf að eiga sér stað á margvíslegan hátt. Bæði með nýrri tækni sem sogar koltvísýring úr andrúmsloftinu og bindur í jörðu og með lífrænni bindingu gróðurs. Til að setja hlutina í samhengi þarf að planta lífmassa á landsvæði sem er á stærð við Indland til þess eins að ná efri mörkunum um 2°C.

Í skýrslunni kemur skýrt fram að eina leiðin til að ná markmiðunum sé að fara út í stórtækar aðgerðir á skala sem við höfum ekki séð áður. Þetta þýðir gríðarlegar breytingar á flutningum, orkunotkun, landnotkun og uppbyggingu innviða. Þetta krefst þess einnig að farið verði í mikla hörðun tækniþróunar til að binda koltvísýring. Allt þetta þarf að eiga sér stað á aðeins tólf árum ef ekki á að fara illa því ef losunin heldur áfram eins og stefnir í mun hlýnunin ná 1,5°C árið 2030.

Þetta er hægt – í Hollywood

Góðu fréttirnar eru þær að skýrslan gerir ekki ráð fyrir neinum töfralausnum. Allar lausnir hennar byggja á tækni og aðferðum sem nú þegar eru þekktar. Góðu fréttirnar eru líka þær að þetta er hægt. En til þess þarf samstillt heimsátak. Slæmu fréttirnar eru þær að slíkt samhent átak hefur aldrei sést í veruleikanum en kann að finnast í Hollywood-kvikmyndum um loftstein sem stefnir á jörðina.

Þið afsakið mig kæru lesendur þegar ég segi, fyrir mína parta, að nær útilokað sé að ná þessum markmiðum í núverandi þjóðskipulagi. Lýðræðislegar stofnanir, bæði þjóðríkin sjálf og yfirþjóðlegar stofnanir sem og ráðandi markaðsöfl eru einfaldlega ófær um að takast á við vandamálið. Til að það megi gerast þurfa þessi öfl nefnilega vinna gegn öllu því sem þeim er eðlislægt. Eða hvernig haldið þið að stjórnmálaafli myndi vegna sem setti fram hugmyndir um ferðakvóta á einstaklinga svo dæmi sé tekið? Ef við hugum að hinu síðkapítalíska markaðskerfi og öflunum sem því stýra (þ.m.t. stjórnmálaöflin) er nær útilokað að ímynda sér að það bregðist við í tæka tíð. Kapítalisminn er eins og krakksjúklingur, krefst aukins hagvaxtar út í hið óendanlega með tilheyrandi neyslu og sóun sem endar í tortímingu.

Enn ólíklegri lausn á vandanum er svo sú útópíska hugmynd að einstaklingarnir sjálfir, þessir 7,2 miljarðar manna, bregðist við með samstilltu átaki um að draga úr losun og breyta lífsháttum á einni svipstundu. Alræði gæti líka verið lausn en þá erum við komin yfir í andhverfu útópíunnar, þ.e. dystópískan veruleika sem er auðvitað martraðarkenndur á sinn hátt.

En hver veit, kannski fáum við Hollywood endi eins og varaformaður Loftslagsnefndarinnar, Valerie Masson-Delmotte gaf í skyn á blaðamannafundi við útkomu skýrslunnar: „Ekkert er ómögulegt ef byggt er á sameiginlegum vitsmunum mannskepnunnar.“

Höldum ótrauð áfram

Undanfarið hefur mér orðið æ ljósara hve sönn fullyrðing kunningja míns er. Það er galið að fæða börn inn í þennan heim sem við erum á góðri leið með að tortíma. Það sem þessi nýja skýrsla sýnir þó enn betur en fyrri skýrslur er að vandamálð verður ekki aðeins arlfeifð okkar til aldamótakynslóðarinnar. Við munum sjálf þurfa að horfast í augu við vandamálin. En við höldum ótrauð áfram, pöntum okkur helgarferð til Barcelona eða Boston og krefjumst þess að öll heimsins matvæli séu flutt heimshornanna á milli á mettíma svo við getum örugglega lifað ljúfa lífinu á meðan strengjakvartettinn á Titanic leikur undur borðhaldinu.

Ingi Björn Guðnason

DEILA