Kostnaður við kærur kosninga 2,6 milljónir króna

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.

Lokið er kærumeðferð í Árneshreppi vegna síðustu sveitarstjórnarkosninga. Tvær kærur voru lagðar fram og var þeim synjað af sérstakri nefnd sem sýslumaðurinn á Vestfjörðum skipaði. Kærendur hélsdu kærunum til streitu og skutu málinu til Dómsmálaráðherra. Ráðherrann hefur afgreitt báðar kærurnar og hafnað þeim.

Kostnaðurinn við kærumeðferðina fellur á sveitarfélagið og Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi upplýsti í svari við fyrirspurn að kostnaðurinn hefði orðið rúmlega 2,6 milljónir króna. Er það umtalsverð fjárhæð þegar horft er til þess að rekstrartekjur A hluta sveitarsjóðs urðu á síðasta ári liðlega 45 milljónir króna. Nemur kostnaðurinn nærri 6% af þeim tekjum. Eva kvaðst hins vegar vongóð um að kostnaðurinn fengist að mestu endurgreiddur úr Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Í kæru Elíasar Kristinssonar og Ólafs Valssonar var þess krafist að kosningarnar yrðu úrskurðaðar ógildar. Þá var þess einnig krafist að dómsmálaráðherra og embættismenn ráðuneytisins vikju úr sæti við meðferð málsins vegna samskipta milli Þjóðskrár íslands og ráðuneytisins við meðferð á lögheimilisskráningum.

Ráðuneytið hafnaði kröfunni sem vék að ráðuneytinu þar sem Þjóðskrá Íslands heyri ekki undir Dómsmálaráðuneytið heldur Samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðuneytið. Því fer Dómsmálaráðuneytið ekki með neinar valdheimildir yfir Þjóðskrá íslands, auk þess sem einu samskiptin þarna á milli voru fólgin í því að ráðuneytið fékk upplýsingar um að Þjóðskrá myndi taka lögheimilisflutningana til athugunar.

Dómasmálaráðuneytið hafnaði einnig kröfunni um ógildinu kosninganna. Segir í úrskurðinum að vissulega hafi verið annmarkar á nokkrum framkvæmdaatriðum svo sem framlagningu kjörskrár og auglýsingu sveitarstjórnafunda, en meginmálið væri að ákvörðun sveitarstjórnar að fella 17 einstaklinga af kjörskrá hafi erið byggð á lögmætum ákvörðunum Þjóðskrár Íslands. Enginn hefði því verið sviptur rétti til þess að kjósa í Árneshreppi sem átti réttmæta kröfu til þess. Á kjörskrá hefðu að lokum verið 46 og þar af hefðu 43 kosið. Umæddir annmarkar væru ekki þess eðlis að ætla mætti að hefðu breytt úrslitum  kosninganna.

 

DEILA