Íslenskur landbúnaður 2018

Tæplega 100 sýnendur koma saman á landbúnaðarsýningu í Laugardalshöll dagana 12. – 14. október. Núna eru 50 ár liðin frá því seinasta stóra landbúnaðarsýningin var haldin í Höllinni. Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar framkvæmdastjóra sýningarinnar verður þetta stærsta landbúnaðarsýning sem haldin hefur verið í Höllinni og hafa þegar yfir 90 fyrirtæki pantað bása, bæði á úti- og innisvæði. Að sögn Ólafs kom mest á óvart hversu fjölbreyttur landbúnaður er stundaður á Íslandi: „Það eru ekki bara okkar fjölbreyttu og hreinu matvæli sem streyma frá bændum heldur stunda þeir ferðaþjónustu í æ meira mæli og líka skógrækt, orkuframleiðslu og hvers kyns heimilisiðnað og allt verður þetta kynnt á sýningunni. Meðal fyrirlesarar verða tveir Vestfirðingar. Birkir Þór Guðmundsson frá Ingjaldssandi, framkvæmdastjóri AB fasteigna fjallar um smávirkjanir og Súgfirðingurinn Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins flytur erindi um verkefni sjóðsins.
Opið frá föstudegi til sunnudags
Sýningin hefst með opnunarhófi kl. 13.00 föstudaginn 12. okt. Þann dag er opnunartími 14.00–19.00, á laugardag 13. okt. 10.00–18.00 og sunnudag 14. okt. 10.00–17.00. Miðar gilda alla helgina en miðaverð er kr. 1.000 og frítt fyrir aldraða, öryrkja, námsmenn og börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum. Félagsmenn í Bændasamtökum Íslands fá senda boðsmiða á sýninguna sem gilda alla sýningardagana.
DEILA