Í hvernig landi búum við?

Jón Garðar Jörundsson.

Hvernig land lætur það viðgangast að heill landsfjórðungur lifi í óvissu og sálarangist og eigi það á hættu að missa allt sitt út af augljósum útursnúningi á orðalagi? Veit þjóðin almennt um hvað málið snýst?

Fyrir tveimur vikum, á afmælisdaginn minn 24. september, fengum við hjónin afhenta fasteign á Bíldudal. Við eigum fjögur börn og eftir að hafa safnað lengi létum við langþráðan draum rætast um að eignast framtíðarheimili með pláss fyrir okkar stóru fjölskyldu. Við höfum trú á Bíldudal (Já enn þá) og við fjárfestum hér í rúmgóðri eign í þeirri trú að um væri að ræða góða og skynsamlega fjárfestingu til framtíðar í vaxandi byggðarlagi.

Þremur dögum seinna (Þremur dögum!!) ákveður Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp á sitt einsdæmi að stefna allri uppbyggingu, fjárhag og framtíð fjölskyldna á Vestfjörðum í hættu fyrir eitthvað sem svo auðveldlega (og augljóslega) hefði getað verið afgreitt með því að kalla eftir frekari greinargerð eða áliti sérfræðings (sbr. 3gr. laga um nefndina). Það er meira að segja búið að gera það fyrir okkur: https://kjarninn.is/…/2018-10-05-eru-fleiri-kostir-raunhae…/.

Á þessum þremur dögum tókst þeim líka að þurrka út ævisparnað sex manna fjölskyldu út af tækniatriði! Út af skorti á samanburði við óraunhæfa kosti. Kosti sem augljóslega koma ekki til tals.

Þessi aðför að heimilum Vestfjarða hlýtur hreinlega að vera brot á okkar mannréttindum og fari svo að þessi aðför endi á versta veg er klárt að við þurfum að leita réttar okkar öll sem eitt.

Alþóðasamningar um mannrétti eiga að tryggja okkur m.a.:
– Rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.
– Rétt til réttlátrar málsmeðferðar.
– Rétt til félagslegs öryggis.
– Rétt til jafnréttis gagnvart lögum.

Þetta mál hefur nú þegar brotið niður bjartsýni og kæft alla fjárfestingu. Læst fólk í fangelsi ótta og skilningsleysis.

Það dugar ekki að ráðamenn segi þetta ólíðandi ef ekkert er að gert. Málið þarf að leysa strax!

Ætlar Ríkissjóður annars að bæta mér það tap sem gölluð stjórnsýsla hefur bakað minni fjölskyldu?

Kv.
Fjögurra barna áhyggjufullur faðir á Bíldudal.

Jón Garðar Jörundsson

DEILA