Húsnæðisþing: stjórnvöld vinna að úrbótum

Frá Húsnæðisþingi 2018.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, lagði í gær fram skýrslu sína um stöðu og þróun húsnæðismála á húsnæðisþingi sem haldið var í fyrsta sinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem ráðherra leggur fram skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála en það er í samræmi við nýtt ákvæði laga um húsnæðismál sem með lagabreytingu sem samþykkt var á Alþingi á síðasta löggjafarþingi.

Í formála ráðherra að skýrslunni vísar hann til stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum sem byggist á því að öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu sé ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Allar fjölskyldur landsins eigi rétt á viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði og að í öllum byggðum landsins eigi að vera nægilegt framboð af húsnæði. Til að þetta megi takast vinni stjórnvöld að ýmsum úrbótum í húsnæðismálum. Ráðherra nefnir þar nokkur verkefni sem verða í forgangi á næstu misserum og telur hann þar fyrst  aðgerðir til að auka möguleika fyrstu kaupenda á íbúðamarkaði þar sem horft verði sérstaklega til tekju- og eignaminnihópa, síðan eru nefnd fjölgun hagkvæmra leiguíbúða, átak til uppbyggingar á landsbyggðinni og tilraunaverkefni sem Íbúðalánasjóður mun ráðast í á næstunni með allt að fjórum sveitarfélögum með það að markmiði að finna viðeigandi lausnir á húsnæðisvanda sveitarfélaga þar sem stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum.

DEILA