Hólmadrangur ehf fær greiðslustöðvun

Rækjuverksmiðjan Hólmadrangur ehf á Hólmavík fékk í morgun greiðslustöðvun hjá embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum.

Viktoría Rán Ólafsdóttir, stjórnarformaður Hólmadrangs ehf staðfesti þetta við bb.is. Starfsemi rækjuverksmiðjunni mun ekki stöðvast og heldur áfram. Að sögn Viktoríu skapar greiðslustöðvunin skjól fyrir fyrirtækið til þess að semja um skuldir þess.  Unnið verður eftir fyrirliggjandi áætlun um lækkun skulda og gera fyrirtækið þannig að nýju greiðsluhæft. Langmest af afurðum fyrirtækisins hefur farið á Bretlandsmarkað og áhrifin af BREXIT hafa  reynst fyrirtækinu erfið.

Yfirlýsing Hólmadrangs:

„Hólmadrangi ehf. hefur verið veitt heimild til greiðslustöðvunar frá og með 12. október 2018.

Hólmadrangur hefur átt í rekstrarerfiðleikum undanfarna mánuði og misseri. Staða greinarinnar hefur verið erfið og fjármögnun rekstrar í samræmi við það.

Í samræmi við lög og reglur fékk stjórn aðstoð við að nálgast málið og vinna úr stöðunni.

Frumskoðun og breytingaáætlun gefur til kynna að hægt sé að bæta hag kröfuhafa með greiðslustöðvun og á þeim grunni er óskað eftir henni.

Það er vilji og ásetningur stjórnar, stjórnenda og starfsmanna að leita allra leiða til að hægt verði að tryggja restur Hólmadrangs til lengri tíma.

Aðstoðarmaður í greiðslustöðvun verður Jón Ármann Guðjónsson, hrl.

Við munum upplýsa hagaðila í samræmi við lög og reglur og heilbrigða skynsemi eftir því sem málum vindur áfram.“