Frumvarp á leiðinni vegna laxeldisins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson lagði  framá ríkisstjórnarfundi í dag  frum­varp til breyt­inga á lög­um nr. 71/​2008, um fisk­eldi sem sneru að veit­ingu rekstr­ar­leyf­is til bráðabirgða.

Þetta frumvarp er lagt fram sem viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurðum  Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, sem ógilti bæði starfs- og rekstraleyfi Fjarðarlax og Arnarlax fyrir fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Efnisatriði frumvarpsins hafa ekki verið gerð opinber.

Á morgun kl 8 verður fundur í Atvinnuveganefnd Alþingis og fiskeldi er þar á dagskrá.

Sjávarútvegsráðherrann heldur opna fundi á Hótel Ísafirði, miðvikudaginn 10. október kl. 19:30 og á Patreksfirði í  Félagsheimilinu, fimmtudaginn 11. október kl. 12:00.

Uppfært kl 18:53:

Borist hefur fréttatilkynning ráðuneytisins. Þar segir að með frumvarpinu sé stefnt að því að lagfæra til framtíðar með almennum hætti galla á lögum um fiskeldi. Er þar átt við ákvæði um hlutverk Matvælastofnunar sem veitir rekstrarleyfi og stofnuninni veitt heimild til þess að veita bráðabirgðaleyfi til allt að 10 mánaða.

Tilkynningin í heild:

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um fiskeldi. Frumvarpinu er ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi að stöðva starfsemi hennar.

Samkvæmt gildandi lögum er rekstrarleyfi Matvælastofnunar skilyrði fyrir starfrækslu fiskeldisstöðva, sbr. 1. mgr. 4. gr. a. laga um fiskeldi. Samkvæmt 21. gr. c. sömu laga skal Matvælastofnun stöðva starfsemi fiskeldisstöðvar sem rekin er án þess að rekstrarleyfi sé í gildi.

Réttaráhrif þess að rekstrarleyfi er fellt úr gildi, m.a. með nýlegum úrskurðum úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála, eru því þau að Matvælastofnun ber að stöðva þá starfsemi sem byggjast á leyfum sem úrskurðirnir lutu að. Ákvæðið í 21. gr. c. er fortakslaust. Tilgangur þess virðist, m.a. með hliðsjón af orðalagi þess, fyrst og fremst sá að tryggja Matvælastofnun örugg stjórntæki til viðbragða ef fiskeldisstöð yrði sett á fót án þess að leyfa fyrir starfsemi hennar hefði verið aflað. Hin fortakslausa regla í 21. gr. c. á hins vegar ekki vel við ef rekstrarleyfi fellur úr gildi m.a. vegna annmarka á stjórnsýslu leyfisútgáfunnar. Í slíkum tilvikum standa þvert á móti sterk rök til þess, m.a. sjónarmið um meðalhóf og um að komist sé hjá óafturkræfri og hugsanlega óþarfri sóun verðmæta, að stjórnvöldum sé með lögum veitt svigrúm til að meta þá hagsmuni sem um ræðir og m.a. hvaða úrræði eru best til þess fallin að ná fram réttri niðurstöðu máls að lögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að í þeim tilvikum er rekstrarleyfi er fellt úr gildi geti ráðherra að fenginni umsögn Matvælastofnunar, enda mæli ríkar ástæður með, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða. Þá kemur fram í frumvarpinu að ráðherra geti sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo tilgangur leyfisins náist, m.a. um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um tímafresti vegna úrbóta eða ef um meðferð máls fyrir dómstólum er að ræða.“

 

DEILA