Yfirlýsing frá Vestfjarðastofu og sveitarfélögum

Patreksfjörður. Mynd: Julie Gasiglia.

Meðfylgjandi er yfirlýsing stjórnar Vestfjarðastofu og sveitarfélaganna Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps, Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstað, Súðavíkurhrepps og Strandabyggðar:

Stjórn Vestfjarðastofu og ofangreind sveitarfélög  harma niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi í gær úr gildi tvö rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi og Arctic Sea Farm til eldis á 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Ljóst er að úrskurðurinn mun hafa gríðarleg áhrif á atvinnulíf á Vestfjörðum sem og á landið í heild en gera má ráð fyrir miklu tapi á útflutningstekjum vegna úrskurðarins. Stjórnin krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja áframhaldandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Úrskurður umhverfis- og auðlindamála er áfellisdómur yfir Alþingi, ríkisstjórn og eftirlitsstofnunum og ljóst er að með skorti á stefnu, aðgerðarleysi og mistökum hafa yfirvöld haft grafalvarleg áhrif á atvinnuuppbyggingu og starfsöryggi fjölda manns.  Um er að ræða skýrt dæmi um sálarlausa stjórnsýslu þar sem framtíð fjölda fólks og margra byggðarlaga er sett í uppnám með einu pennastriki. Umhugsunarvert er hvernig stjórnsýslan hefur þróað með sér kerfi þar sem ákvarðanir eru teknar án þess að minnst sé á fólk, fjölskyldur eða samfélagslegar afleiðingar.

Vestfirðingar hafa gegnum aldirnar byggt afkomu sína á sjávarútvegi og er eini landshlutinn á Íslandi þar sem öll sveitarfélögin hafa umhverfisvottun Earth Check. Fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem skapað getur umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir land og þjóð og haft í för með sér jákvæða íbúaþróun.  Þá eru Vestfirðir stóriðjulausir og fjórðungurinn verður það áfram um ókomna tíð. Í ljósi þessa eru Vestfirðir í fararbroddi þegar kemur að umhverfismálum landsins.

Úrskurðurinn vekur jafnframt upp spurningar um stöðu annarra atvinnugreina og nýtingu náttúrunnar, hvort sem er til fiskeldis, ferðaþjónustu eða landbúnaðar, gagnvart jafn fordæmalausri og ósvífinni hagsmunabaráttu fámennra hópa auðmanna.  Það getur ekki verið vilji samfélagsins að stöðva allar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða atvinnuuppbyggingu, úrbætur í vegamálum eða orkuflutningu og framleiðslu, með flókum kerfum sem ekki tala saman.

Vestfirðingar eru forviða yfir þessum úrskurði og beina þeim tilmælum til stjórnvalda að horfa til heildarhagsmuna þjóðarinnar í málefnum fiskeldis, sem er atvinnugrein í örum vexti á heimsvísu, enda ein umhverfisvænasta framleiðsluaðferð á matvælum sem mannkynið býr yfir. Mikilvægt er að fiskeldisuppbygging endi ekki í þeim sorglega farvegi að velkjast um í kerfinu í áratugi með óbætanlegu tjóni fyrir fyrirtækin, samfélögin sem um ræðir og þjóðarbúið.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA