Vill tengja frístundarútu við alla bæjarkjarna Ísafjarðarbæjar

Á 186. fundi íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar var lagður fram tölvupóstur frá varaformanni nefndarinnar, Sif Huld Albertsdóttur, þar sem hún óskar eftir því að möguleikar verði kannaðir á því að tengja frístundarútu við alla bæjarkjarna Ísafjarðarbæjar.

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar er sammála um að tengja verði frístundarútu við alla bæjarkjarna og stefnir að því að gera þarfagreiningu og skoða mögulegar lausnir.
Á sama fundi var lögð fram íþrótta- og tómstundastefna Ísafjarðarbæjar og drög að endurskoðunaráætlun. Í tómstundastefnunni kemur fram að íþrótta- og tómstundastarf séu ein af grunnþörfum hvers samfélags og eitt af því sem fólk tekur mið af þegar það ákveður búsetu. Ísafjarðarbær vill því skapa þannig aðstæður að fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf geti þrifist í sveitarfélaginu.

Vinna við þessa stefnu hófst árið 2011 og hún var samþykkt í bæjarstjórn árið 2012. Í íþrótta- og tómstundastefnu Ísafjarðarbæjar segir að mikilvægt sé að leita allra leiða til að fjölga ferðum á milli bæjarkjarna og auka þannig aðgengi ungmenna að íþrótta- og tómstundastarfi í öðrum byggðum sveitarfélagsins. Allir iðkendur íþrótta- og tómstundastarfs í Ísafjarðarbæ eiga auk þess að vera jafnir óháð kyni og/eða aldri. Þá er enn hnykkt á því undir liðnum „aðgerðir“ að bæta þurfi almenningssamgöngur svo að henti tómstunda- og íþróttaiðkun.

Svo segir ennfremur: „Hvetja þarf börn og ungmenni til að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi… Gildi íþrótta, lista, tómstunda og holls lífsstíls hefur margsannað sig í forvarnarstarfi.“

Sem stendur gengur einungis frístundarúta á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Sú rúta gengur oftar en almenningssamgöngur fara til Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar en samt á þeim tímum þannig að ungmenni úr þorpunum geta ekki nýtt sér frístundarútuna, nema bíða í nokkrar klukkustundir á Ísafirði og vera þá komin heim í sitt þorp undir kvöldmat.

Sæbjörg
bb@bb.is