Veitingamótið haldið í gær, laugardag

Það haustar í starfi Golfklúbbs Ísafjarðar og nú um helgina var haldið næst síðasta mót sumarsins, Veitingamótið. Mótið er haldið með svokölluðu Texas scramble fyrirkomulagi þar sem tveir keppa saman í liði og er betri bolti notaður í leiknum. Styrktaraðilar mótsins voru veitingahús við Djúp og veittu þau vegleg verðlaun, út að borða fyrir fjóra fyrir fyrstu sjö sætin. Sigurvegarar voru Smiðirnir með þeim félögum Salmari Jóhannssyni og Högna Gunnari Péturssyni. Þeir léku eins og meistarar og áttu sigurinn svo sannarlega skilið. Þó golf sé venjulega einstaklingsíþrótt er Texas scramble fyrirkomulagið undantekning þar sem samvinna skiptir öllu máli og hver bæti hinn upp í hverju höggi.

Síðasta mót sumarsins verður haldið á næsta laugardag, 15. september á Tungudalsvelli. Mótið er uppskeruhátíð golfklúbbsins og þar er keppt með Ryder fyrirkomulagi, þar sem tvö lið keppa sín á milli. Mótið er skemmtimót þar sem allir eru velkomnir og eftir leikinn verður grillað í golfskálanum í boði Hótels Ísafjarðar. Þátttakendum verður skipt í tvö lið og leiknar níu holur og þar skiptir liðsandi og samvinna öllu máli.

En starfsemi klúbbsins heldur áfram þó mótshaldi sumarsins ljúki og menn munu leika golf meðan veður leyfir á völlunum í Tungudal og í Syðridal. Í gærkvöldi mátti sjá skemmtilega kvikmynd um golfvöllinn í Syðridal, Albatros, og samskipti klúbbana á Ísafirði og í Bolungarvík. En sem betur fer var þar ekki um raunsanna mynd að ræða og óhætt að segja að samstarf og vinátta ríki frekar milli klúbbanna en því sem lýst var í kvikmyndinni.

Í október fara félagar í Golfklúbbi Ísafjarðar í afmælisferð til La Sella á Spáni þar sem þeir munu stunda sinn skemmtilega leik í suðrænu loftslagi við Miðjarðarhafið, þegar haustið kveður dyra hjá okkur Ísfirðingum, með kólnandi veðri, hvítum fjallatoppum en fallegum haustlitum.

Gunnar

DEILA