Þórdís Sif sú fyrsta sem hlóð bílinn sinn með hraðhleðslu á Ísafirði

Þórdís Sif Sigurðardóttir rafbílaeigandi

Það var rafbílseigandinn og bæjarritarinn Þórdís Sif Sigurðardóttir sem fékk sér í dag fyrstu hleðsluna úr hlöðu sem Orka náttúrunnar hefur reist á þjónustustöð N1 á Ísafirði. Hraðhleðslan í hlöðunni er sú fyrsta sem ON reisir á Vestfjörðum og fagnar Þórdís þessu skrefi í að styðja við fjölgun rafbíla í landinu og þar með nýtingu á hreinni orkugjafa í samgöngum.

Hlaðan vestra er búin tveimur tengjum til að hraðhlaða rafbíla ásamt þremur öðrum venjulegum hleðslutengjum. Þannig getur hún þjónað nánast öllum gerðum rafbíla hér á landi. Á Vestfjarðakjálkanum hafa þó nokkur sveitarfélög sett upp hefðbundnar hleðslur fyrir rafbílaeigendur og með hraðhleðslunni eykst þjónustan við þá sem valið hafa þennan visthæfari ferðamáta. Þá hefur Orkubú Vestfjarða þegar sett upp hraðhleðslur á Hólmavík og Patreksfirði.

Á vef ON og í appinu ON Hleðsla geta rafbílaeigendur séð staðsetningar allra hlaða ON og hvort þær eru lausar. Þar er líka finna staðsetningu hleðslubúnaðar annarra sem ON er kunnugt um.

Viðstödd þegar nýja hlaðan var opnuð voru þau Þórdís Sif Sigurðardóttir rafbílaeigandi, Gunnar Sigurðsson, stöðvarstjóri N1 á Ísafirði sem og Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri hjá ON og Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóri hjá ON. Hlaðan á Ísafirði er áttunda hlaðan sem ON og N1 hafa samstarf um að reisa og verða þær hluti fríðindakerfis viðskipta N1. „Fyrirtækið lítur svo á að rafbílaeigendum muni bara halda áfram að fjölga í hópi okkar viðskiptavina og það að hlaða bílinn sinn er óðum að verða sjálfsagður þáttur í okkar þjónustu,“ segir Gunnar Sigurðsson, stöðvarstjóri N1 á Ísafirði.

Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri hjá Orku náttúrunnar, nefndi við þetta tækifæri metnaðarfulla aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem kynnt var í byrjun vikunnar. „Það er augljóst að umhverfisvænni samgöngur munu skipa einna stærstan sess í baráttu okkar við loftslagsvandann og við hjá Orku náttúrunnar ætlum okkur að standa framarlega í baráttusveitinni hér eftir sem hingað til,“ segir Hafrún.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA