Þjóðtrúarkvöldvaka í Sævangi

Laugardaginn 8. september klukkan 20:00 verður haldin árleg þjóðtrúarkvöldvaka í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum. Kvöldvakan ber að þessu sinni yfirskriftina Á mörkum lífs og dauða.

Þjóðtrúarkvöldvökurnar í Sævangi hafa verið haldnar síðan árið 2013 en sú fyrsta var haldin í tengslum við opnun sýningarinnar Álagablettir á Ströndum. Á þessum viðburðum er yfirleitt rætt um óvenjuleg og stundum dálítið óhugnanleg efni og í kvöld verður engin breyting þar á. Á kvöldvökunni verða að þessu sinni flutt þrjú fróðleg og skemmtileg erindi um þjóðtrú og þjóðsögur og munu fyrirlesararnir nálgast mörkin milli lífs og dauða hvert með sínum hætti. Fyrirlestrarnir sem verða fluttir á laugardaginn eru:
Er andi í glasinu? – Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og doktorsnemi.
Ýluskarð og Skæluklöpp: Útburðir í íslenskri þjóðtrú – Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum.
Bara annars staðar: Um ljósmyndir af látnum – Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor í safnafræði við HÍ.

Þá verður á boðstólum kynngimagnað kvöldkaffi og Skúli Gautason mun sjá um að skemmta gestum með tónlist. Það eru Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Sauðfjársetur á Ströndum og Fjölmóður – fróðskaparfélag á Ströndum sem standa saman að viðburðinum sem er opin öllum.

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is

DEILA